Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 22:03:39 (760)

[22:03]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég beindi máli mínu til efh.- og viðskn. vegna þess að ég vænti þess að frv. fari þangað. Vissulega vildi ég líka vekja athygli hæstv. fjmrh. á þessu atriði með lánaþörfina. En ég fékk takmörkuð svör við spurningum mínum. Ég spurði hvernig önnur verðbréf ríkisins hefðu selst frá því að ECU-bréfin fóru á markaðinn og ég fékk engin svör við því. Kannski svarar hæstv. ráðherra því. Eina svarið var að húsbréfin hefðu lítið hreyfst en hins vegar vildi hæstv. ráðherra halda því fram að ekki væri hægt að sjá neitt samband þarna á milli en ég held að íslenski fjármagnsmarkaðurinn sé ekki svo stór að þegar kemur á markaðinn og eru seld bréf, mig minnir að ég hafi heyrt að það væri fyrir um 300 millj. sem hafi selst af þessum bréfum fyrsta daginn, hlýtur það náttúrlega að hafa einhver áhrif á markaðinn í kring. En ég var að spyrja hæstv. ráðherra í hvaða átt þau eru, hvort það væru áhrifin á húsbréfin. Hann vildi halda því fram að svo gæti ekki verið en mér finnst að það sé dálítið svipað og þegar ég spurði hvernig fjmrn. hefði áætlað áhrif ECU-bréfanna, að lítil þekking virtist vera þarna eða væri lítið reynt að gera sér grein fyrir framtíðinni með þeim athöfnum sem ráðist væri í. Því sé þetta allt heldur handahófskennt.