Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 22:06:04 (761)

[22:06]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vísa því algerlega á bug að þetta sé handahófskennt því að hv. þm. veit eins og við öll sem höfum verið að ræða þessi mál að ekki er hægt að segja nákvæmlega fyrir um hvernig markaðurinn tekur nýjum bréfum. Ríkið getur hins vegar ákveðið hvort það tekur tilboðum sem koma á markaðnum og það var ákveðið að taka tilboðum á þeim kjörum sem buðust og þau eru talin vera ásættanleg. Ég sé ekki að nein áhrif séu af þessu útboði á aðra pappíra ríkissjóðs enda eru þetta ólíkir pappírar, án verðtryggingar og til langs tíma. Ekkert útboð hefur átt sér stað frá þessu útboði nema á skammtímapappírum, þ.e. þriggja mánaða víxlum og þar hækkuðu vextir um um það bil 10 punkta ef ég man rétt, fóru eitthvað yfir 5% markið, þ.e. óverðtryggðir vextir til þriggja mánaða. Það var ekkert óeðlilegt sem kom fram í því útboði.
    Það sem auðvitað skiptir máli er að ríkissjóður þarf ekki á nýjum peningum að halda fram að jólum. Á síðari hluta ársins aflar ríkissjóður meiri tekna en á fyrri hluta ársins. Þess vegna er staða ríkissjóðs mjög góð. Hins vegar þarf sífellt að endurnýja þann stokk sem stendur úti og er að stórum hluta til í skammtímabréfum eins og allir vita.