Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 22:43:36 (763)

[22:43]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Staða ríkisstjórnarinnar í þessari umræðu er í raun orðin þannig að ríkisstjórnin hefur gefist upp á að standa fyrir máli sínu og verja stefnu sína um vaxtalækkanir. Það er satt að segja ótrúlegt að hugsa til þess hér í kvöld að það séu ekki nema þrjár vikur síðan ríkisstjórnin lagði fram fjárlagafrv. þar sem vaxtalækkanir eru hornsteinn frv. Það er enn ótrúlegra að hugsa til þess að það eru ekki nema nokkrir dagar síðan hæstv. viðskrh. lýsti því yfir galvaskur í fjölmiðlum, sama daginn og hann guggnaði á að taka til máls hér á Alþingi þrátt fyrir ítrekaðar spurningar, að hann mundi næsta dag halda fund með Seðlabankanum til að tryggja vaxtalækkanir bankakerfisins. Síðan gerist það í kvöld þegar hæstv. viðskrh. leggur ekki í það að vera viðstaddur þessa umræðu að það næst í hann í bílasíma milli Hafnar í Hornafirði og Egilsstaða og hann er spurður um nýjustu tíðindi um vaxtahækkanir Landsbankans, það fyrsta sem gerist eftir fundinn fræga fyrir helgi, þá segir hæstv. viðskrh. í bílasímanum: Ég get ekkert gert. Þetta er bara bankakerfið og við getum ekkert gert, sagði hæstv. viðskrh., gafst þar með upp einhvers staðar á heiðunum milli Hafnar í Hornafirði og Egilsstaða í bílasímanum. Það er kannski við hæfi að uppgjafaryfirlýsingin berist þjóðinni með þeim hætti. Og nú skil ég vel hvers vegna hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson vildi ekki vera með viðskrh. í þessari ferð. Ég get ekkert gert, sagði hæstv. viðskrh. Sighvatur Björgvinsson. Bankarnir eru byrjaðir að hækka vextina og hæstv. forsrh. farinn. --- Hann er farinn.
    Hæstv. forsrh. var spurður margra spurninga í dag. Hann hefur ekki svarað þeim. ( SvG: Munnangur.) En hæstv. forsrh. kom hér í stólinn og réðst á ónafngreindan seðlabankastjóra fyrir munnangur. Mér heyrðist hæstv. forsrh. segja að það væri þýðing á orðunum economic mouth piece. ( Fjmrh.: Mouth hvað?) Mouth piece mun hann hafa sagt. ( Fjmrh.: Mouth disease.) Mouth disease. Hæstv. fjmrh. segir að hann hafi sagt mouth disease og ég fer nú að skilja hvers vegna viðræður hæstv. forsrh. á erlendri grundu ganga stundum dálítið illa ef hann ber mouth disease fram sem mouth piece. ( Fjmrh.: En það er hv. þm. sem segir mouth piece.)
    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að biðja hv. þingmenn um að hafa kyrrð í salnum.)
    Virðulegi forseti. Þetta er alveg mér að meinalausu. Mér finnst allt í lagi þó að þeir hæstv. fjmrh. og hv. varaformaður fjárln. reyni nú að hlæja hér vandræðalega í lokin á þessari umræðu því að það er ekkert annað fyrir þá að gera. Það vill hins vegar svo til að það hafa fleiri seðlabankastjórar en sá sem hér var á þingi nýlega tjáði sig um þessi mál að undanförnu. Það hefur t.d. komið fram í sjónvarpi að seðlabankastjóri Eiríkur Guðnason treystir sér ekki til að segja neitt um það hvort vextir færu hækkandi eða lækkandi í viðtali 17. okt. Og það kom líka fram í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku að Birgir Ísl. Gunnarsson, formaður bankastjórnarinnar, lýsir því yfir að Seðlabankinn hafi keypt húsbréfin vegna þess að þau hafi verið tappi í vaxtaþróuninni, --- tappi í vaxtaþróuninni voru orðrétt ummæli seðlabankastjóra Birgis Ísl. Gunnarssonar. Þess vegna er það nú þannig að seðlabankastjóri Steingrímur Hermannsson stendur nú ekkert einn í þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið að undanförnu. Kannski er það þannig að gjörvallur Seðlabankinn sé orðinn þannig staddur í þessari umræðu að hæstv. forsrh. vilji helst óska sér þess að það verði farið eins með Seðlabankann eins og pistlahöfundana á Rás 2, verði sagt upp vegna þess að forsrh. þoli einfaldlega ekki að heyra ummæli Seðlabankans.
    Síðan gerist það í kvöld að fréttir berast af því að Steingrímur Hermannsson seðlabankastjóri lýsir því yfir að hinn mikli vöxtur skulda heimilanna geti leitt til kreppu í bankakerfinu. Nú hefði maður haldið að hæstv. forsrh. sem kaus að hefja hér í dag árás á seðlabankastjórann, ráðast á hann hér í þingsalnum þar sem hann veit að hann á ekki lengur sæti, mundi kjósa að mæta til fundar í kvöld til þess að standa fyrir máli sínu og geta rætt það við okkur, sérstaklega í ljósi þess sem fjölmiðlar sögðu í kvöld um ræðu seðlabankastjórans á þingi BSRB. Það gerist hins vegar ekki. Ábyrgur forsrh., af því að hæstv. forsrh. talaði nú mjög í dag um ábyrga menn, ábyrgur forsrh. ræðst ekki á bankastjóra Seðlabankans nema vera tilbúinn að standa fyrir máli sínu. Alvöruforsætisráðherra í alvörulandi hefur ekki þannig árás á seðlabankastjórann sem hæstv. forsrh. gerði hér í dag nema vera tilbúinn að standa fyrir máli sínu. Nema hæstv. forsrh. vilji einfaldlega ekki láta taka mark á orðum sínum og er þá sjálfur orðinn sekur um hið sama og hann var að gagnrýna seðlabankastjórann fyrir.
    Satt að segja er það þannig, virðulegi forseti, að það er nánast spurning um góðmennsku gagnvart ríkisstjórninni að hætta þessari umræðu fljótlega. Það er ekkert orðið eftir af stefnunni. Það er ekkert orðið eftir af 5% markinu. Það er ekkert orðið eftir af því að draga úr umsvifum ríkisins. Það er ekkert orðið eftir af því að stöðva erlendar lántökur hins opinbera. Það er ekkert orðið eftir af því að styrkja framkvæmdagleði atvinnulífsins. Það er ekkert orðið eftir af því að stöðva ofvöxt ríkisins umfram vöxt atvinnulífsins. Það sem blasir við er ríkisstjórn sem er að festast í hjólfari vaxandi skuldasöfnunar, stöðvunar á vaxtalækkunum og framúrkeyrslu hins opinbera í samanburði við atvinnulífið í landinu. Verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður þess vegna fyrst og fremst það að veita atvinnulífinu í landinu þann forgang fram yfir ríkisvaldið sem þessari ríkisstjórn hefur mistekist að veita.
    Það eru dálítið merkileg tíðindi að Sjálfstfl. skuli skilja þannig við efnahagsmálin og ríkisfjármálin að við sem tökum við að loknum næstu kosningum þurfum að gera það að kjarna hinnar nýju stefnu að endurreisa atvinnulífið með þeim hætti að efnahagsstefna næstu ára feli það í sér að haldið verður aftur af ríkinu en atvinnulífinu gefin ný sóknarfæri, hætt að safna skuldum hjá hinu opinbera, hætt að sækja inn á lánsfjármarkaðinn umfram atvinnulífið og skapa það svigrúm fyrir fyrirtækin og reksturinn í landinu sem er forsenda fyrir bættum lífskjörum. Hver hefði trúað því þegar þessi ríkisstjórn tók við með Jón Sigurðsson sem viðskrh., Davíð Oddsson sem forsrh. og Friðrik frjálshyggjumann Sophusson sem fjmrh., að þessir þrír menn mundu í samvinnu við aðra ráðherra hefja ríkisvaldið til meiri vegs og umsvifa í íslensku efnahagslífi en nokkru sinni fyrr á kostnað atvinnulífsins? En það verður með gleði sem við alþýðubandalagsmenn munum ganga í það verk að veita atvinnulífinu á Íslandi þann sess sem því ber og víkja til hliðar þeirri ríkisdrottnunarstefnu sem Sjálfstfl. hefur fylgt hér í reynd síðan hann tók við 1991, ríkisdrottnunarstefnu á lánsfjármarkaði, ríkisdrottnunarstefnu í skuldasöfnun, ríkisdrottnunarstefnu í fjárfestingu.