Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 23:21:00 (765)

[23:21]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var ein setning í ræðu hæstv. fjmrh. sem kom nokkuð á óvart og sætir nokkrum tíðindum. Þessi setning felur í sér tilefni til áframhaldandi umfjöllunar um þá afstöðu sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. Ég vildi því vekja athygli á þessari setningu vegna þess að ég reikna ella með að önnur atriði sem meira voru um rædd í ræðunni og kunna að verða rædd á eftir kunni að drekkja þessari setningu en hún er nú þannig að mínum dómi að það er nauðsynlegt að hún verði tilefni til frekari umræðna.
    Hæstv. fjmrh. lýsti þeirri skoðun sinni, sem að vísu væri persónuleg skoðun sín, tók það fram, að flugstöðin á Keflavíkurflugvelli ætti að heyra undir samgrn. Rökin voru m.a. þau að ráðherra lét í það skína að það væri líklegast eina færa leiðin til þess að greiða úr hinni miklu fjárhagsflækju sem skuldir flugstöðvarinnar eru.
    Mér finnst þetta vera mjög athyglisvert sjónarmið. Mér finnst það vera jákvætt innlegg í umræðu um flugstöðina sem satt að segja er búin að spjóla í sama hjólfarinu árum saman án nokkurrar niðurstöðu og vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann sé ekki reiðubúinn til samvinnu við ýmsa í þinginu. Mér finnst óþarfi að slíkt mál sé málefni stjórnar eða stjórnarandstöðu eða flokka, hvort hann sé reiðubúinn á næstunni eða í vetur til viðræðna við menn í þinginu um að kanna grundvöll að því að hér myndist þingmeirihluti um þá breytingu að færa flugstöðina undir samgrn. og þannig skapa henni aðgang að samgöngufjármagni í landinu.