Lánsfjárlög 1995

18. fundur
Þriðjudaginn 25. október 1994, kl. 23:24:52 (767)

[23:24]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er einu sinni þannig með breytingu á verkaskiptingu í Stjórnarráðinu að það er kannski skynsamlegast að gera hana undir lok kjörtímabils. Þá er ekki búið að mynda ríkisstjórn, þá er ekki nýkominn til valda ráðherra sem vill halda öllu sínu. Mér finnst hins vegar margt mæla með því að slík breyting sé gerð undir lok kjörtímabilsins. Þá veit enginn hver kann að fara með viðkomandi ráðuneyti að loknum kosningum og þess vegna ekki verið að taka ákvörðun um að skerða hlut flokks eða einstaklings sem með ráðherraembættið fer. Þess vegna bið ég hæstv. fjmrh. að hugleiða hvort ekki sé skynsamlegt að reyna að stuðla að því að slík breyting verði gerð hér áður en þingi lýkur fyrir kosningar.
    Ég held nefnilega að það sé töluverður sannleikur í því hjá hæstv. fjmrh. að það fæst engin viðunandi lausn á fjárhagsvanda flugstöðvarinnar nema opna leiðir til þess að hún verði hluti af heildarsamgöngumálum landsins, geti orðið þátttakandi í því fjármagni sem varið er til samgöngumála með einum eða öðrum hætti, hvort sem það er flugmála eða annarra mála. ( JGS: Vill þingmaðurinn taka hana inn á vegáætlun eins og ferjurnar?) Ég er ekki að segja það, hv. þm. Jóhannes Geir, og er nú eftir þeim framsóknarmönnum þegar þeir loksins mæta í salnum að fara að blanda sér með einhverjum skætingi í alvarlegar umræður af þessu tagi ( JGS: Þetta er ekki skætingur.) frekar en að koma málefnalega inn í þá umræðu með okkur hinum um hvernig eigi að leysa þennan hnút. Ég ætla ekkert að biðja fjmrh. um frekara svar nú en bið hann bara að hugleiða það ásamt félögum sínum hvort ekki er skynsamlegast að gera þessa breytingu í lok kjörtímabilsins.