Samkomulag þingflokksformanna um mál á dagskrá

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 13:46:48 (788)

[13:46]
     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram að fundur í gærkvöld og þau mál sem tekin voru fyrir á þeim fundi komu mér á óvart. Ég hafði samband við forseta þingsins meðan fundur stóð síðdegis í gær og forseti tjáði mér afdráttarlaust að lokið yrði umræðu um frv. til fjáraukalaga og frv. til lánsfjárlaga og lengur yrði ekki haldið áfram og ég vissi ekki að til stæði að halda kvöldfund og því síður að t.d. ríkisreikningur fyrir árið 1991 yrði tekinn fyrir. Það eru auðvitað mikil mistök í fyrsta lagi að fjmrh. sé ekki kynnt slík ákvörðun, en það eru enn þá meiri mistök að það skuli brugðið frá þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið og þingmönnum tilkynntar. Ég get því tekið undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram og hef talið að það þurfi að koma meira og betra lagi á þær tilkynningar sem berast til þingmanna um slíka meðferð mála hér í þinginu.
    Það er svo aftur annað mál sem hæstv. fjmrh. sagði að hér er um gömul mál að ræða. Það er vitað að hér er um að ræða ágreiningsmál sem ég hefði kosið að taka til máls um við 1. umr. svo sem eins og ég hef gert áður þegar þau mál hafa komið fyrir hér á hv. Alþingi.