Samkomulag þingflokksformanna um mál á dagskrá

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 13:51:29 (792)

[13:51]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það vandamál sem hér er lýst á sér að mínum dómi rætur í þeirri siðvenju sem mér finnst fara vaxandi að það er mikill hreyfanleiki á því hver situr í forsetastól og það virðist sem forseti Alþingis, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir sem ber meginábyrgð á skilaboðum og því samkomulagi sem gert er, beri þau ekki áfram. Það var gert samkomulag fyrr á þessum þingi við einn af forsetunum, það barst ekki áfram til hinna forsetanna og þannig er hægt að nefna fjölmörg dæmi. Það er alveg greinilegt að milli forsetanna verður að koma á nýrri siðvenju í samskiptaháttum og það er líka mjög vont fyrir okkur að þurfa sífellt að vera að semja við nýjan og nýjan einstakling á forsetastóli.
    Ég vil hins vegar láta það koma hér fram að ég átti samræður við forseta Salome Þorkelsdóttur í gær, reyndar að hennar frumkvæði, þar sem hún tilkynnti mér það að það væru þrjú mál sem ætti að taka

fyrir. Það væru lánsfjárlögin, fjáraukalögin og síldarfrv. sem hér hefur komið til umræðu, meira ætti ekki að taka fyrir. Síðan vil ég staðfesta það hins vegar að hæstv. fjmrh., svo að öllu sé til haga haldið sem rétt er, hæstv. fjmrh. kom að máli við mig hér einhvern tíma á tólfta tímanum í gærkvöldi þegar umræðunni var að ljúka um lánsfjárlögin og spurði hvort ég hefði nokkrar athugasemdir við það að gera að hann tæki ríkisreikningsfrumvörpin tvö og eitt annað mál. Og hvort sem það var nú svona vegna samúðar minnar með fjmrh. sem er með langan lista af málum og vill gjarnan koma þeim til nefndar, þá sagði ég það að ég gerði ekki athugasemdir við það. Ég var ekki að gera það fyrir hönd flokksins sem slíks en ég vil að hið rétta komi fram í málinu að . . .  ( SvG: Hann tók það þannig.) Það má vera að hann hafi tekið það þannig, því svarar hann þá sjálfur. En ég vil ekki að það sé nein leynd yfir því að við ræddum þetta ég og fjmrh. með þessum hætti. En hitt breytir því ekki að forseti Alþingis var fyrr um daginn búinn að tilkynna mér formlega niðurstöðu forsetanna um annað.