Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 14:36:51 (801)

[14:36]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Ég vil gera grein fyrir minni skoðun að í þeirri kröppu stöðu sem vinnsla síldar til manneldis er þá er ekki óeðlilegt að þetta lagafrv. komi fram. Ég vil aðeins geta um nokkur atriði. Inn í þessa umræðu hljóta að blandast markaðsmálin sem eru í mjög alvarlegri stöðu eftir hrun Rússamarkaðar. Ef vel tekst til gætu hugsanlega selst þangað nokkur þús. tunnur og ekki nema 40 þús. tunnur til Svíþjóðar. Það er kannski allur markaðurinn sem við höfum ásamt einhverjum smáslatta til Finnlands.
    Ég held að það sé líka ástæða til að nefna það að afkastageta stöðva sem geta unnið síld til manneldis af aðlægum miðum er allt of lítil miðað við þann tíma sem síld hefur veiðst á undanfarin haust. Ég held að líka sé rétt að geta um það að aðilar sem geta unnið síld við Faxaflóa, allt frá Grindavík, eru nánast að segja úr leik vegna fjarlægðar frá miðum. Síldin sem hefur veiðst fyrir austan hefur reynst illa hæf til vinnslu þegar svo löng sigling er af miðum sem raun ber vitni. Það er einhvern veginn orðið þannig að síldin þolir ekki lengri siglingu. Jafnvel þó að hún sé ísuð þolir hún ekki meira en 15--16 tíma hver sem ástæðan er, hvort þetta hefur verið svona --- það held ég ekki, en þetta hefur einhvern veginn breyst.
    Ég held að ástæða sé til að geta um hlut sjómannanna úr síldveiðunum. Mismunur á kílóverði hvort síld fer til bræðslu eða til vinnslu er aðeins hálf króna á kíló. Ég tel að vanti alvarlega hvata til að sjómenn sjái sér hag af vinnslu síldar til manneldis þegar um slíkar veiðar er að ræða sem nú er að aðallega loðnuskipin stunda veiðar. Ég hygg að ekki séu nema 3--4 af þeim sem geta talist hefðbundnir síldarbátar á miðunum, hitt eru loðnuskip. En ég fullyrði að vilja sjómanna skortir ekki til að veiða síldina til manneldis en þeir vilja auðvitað ná sínum kvóta á sem skemmstum tíma. En auðvitað, svo ég nefni það einu sinni enn, verðum við að leggja áherslu á markaðssókn.
    Virðisauki við vinnslu síldar til manneldis er ótvíræður. Atvinnusköpun við flökun og niðurlagningu síldar er að sjálfsögðu það sem við erum að vonast eftir. Það er kannski gaman að geta þess að sem fyrrv. síldveiðisjómaður man ég ósköp vel alla þá rómantík sem var í kringum síldveiðar á árunum frá 1959 og fram undir 1970 meðan ég þekkti til. Þá fóru síldveiðar fram á bátum í stærðarflokknum frá 45 og upp í 220 tonn. Sá tími er ugglaust liðinn en ég vona að síldin fari að hegða sér eins og hún gerði. Hún verði að vori og hausti í Faxaflóa og við Austfirði og út af Norður- og Austurlandinu að sumri. Ég er alveg klár á því að ef veiðitíminn lengist og veiðisvæðið stækkar þá koma möguleikar til aukinnar vinnslu en grundvöllurinn undir því er fyrst og síðast aukin markaðssókn. Þá treystist grunnur sjávarfangs sem undirstaða lífsskilyrða Íslendinga.
    Mig langar til þess að bera fram eina spurningu til hæstv. sjútvrh.: Metur sjútvrh. það á þann veg að möguleiki sé á ígildisviðskiptum á milli Rússa og Íslendinga með síld frá okkur og þorski frá þeim? Ef ígildisviðskipti með síld og þorsk á milli Rússa og Íslendinga tækjust þá gæti hugsanlega verið svolítið önnur staða varðandi markaðsmálin.
    Frú forseti. Að lokum þetta: Ég treysti hæstv. sjútvrh. til að fara með það vald sem honum er falið á hendur með lagasetningu þessa frv. og ég hvet eindregið til þess að því verði hraðað svo sem verða má í gegnum þingið og hægt verði að nýta þessi lög á þessu hausti.