Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 15:03:20 (806)

[15:03]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frv. og þakka hæstv. sjútvrh. að bregðast svo skjótt við í framhaldi af áfangaskýrslu nefndar um síldarmál sem kom fram fyrir rúmum mánuði. Ég tel óhjákvæmilegt að stjórna nýtingu síldaraflans með markvissum hætti. Það kemur skýrt fram í athugasemdum með frv. hvernig nýting síldaraflans hefur breyst og hve gríðarlega hratt hún hefur breyst frá því að 2% aflans fóru til bræðslu á vertíðinni 1986--1986 í það að sjö árum seinna var farið að bræða 72% aflans og á síðustu vertíð 63%.
    Ástæðurnar eru náttúrlega margar eins og hér er bent á. Það er breytt hegðun síldarinnar og framboð saltsíldar hefur aukist frá öðrum Evrópulöndum en fyrst og fremst held ég að ástæðan sé hrun markaða í fyrrum Sovétríkjum og ekki síður aukin sókn loðnuflotans í síldveiðarnar. Loðnuflotinn hefur farið af miklum krafti í síldveiðarnar síðustu haust vegna þess að loðnuveiðar hafa legið niðri mánuðum saman yfir haustmánuðina. Þessi floti hefur tekið þetta af miklum krafti, tekið kvótann í fáum túrum og nánast rótað síldinni upp til bræðslu.
    Þessi breyting á nýtingu aflans er auðvitað afleit og óviðunandi. Verðmæti aflans minnkar og störfum fækkar stórlega þegar aflinn er bræddur en ekki saltaður og frystur. Það má auðvitað ekki endurtaka sig sem skeði á síðustu vertíð að ekki væri hægt að standa við gerða samninga þegar veitt er margfalt það magn sem þarf til að standa við samningana. Það er hætt við að það leiði til þess að erfiðara verði um sölu á saltaðri síld í framtíðinni.
    Ég vil taka undir þá áherslu sem nefnd um síldarmál leggur á markaðssókn þar sem lögð er áhersla á að gera sem verðmætasta útflutningsvöru úr þeirri síld sem veidd er. Þar er bent á að neyslan sé langmest á þeim landsvæðum sem áður tilheyrðu fyrrverandi Sovétríkjum og aðalhindrunin á miklu magni til þessara landa sé sú að innflutnings- og dreifingaraðilar þar treysti sér ekki til að kaupa síldina nema gegn meiri greiðslufresti sem ekki hefur verið unnt að veita. Nefndin hvetur til þess að það verði í samvinnu við íslensk stjórnvöld fundnar viðunandi leiðir til að auka á ný síldarsölu til Rússlands og annarra fyrrverandi landa Sovétríkjanna. Ég held að á það þurfi að leggja mjög mikla áherslu að eftir þessari ábendingu nefndarinnar verði farið.
    Í 2. gr. frv. er ráðherra gert að leita umsagnar samráðsnefndar samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands útvegsmanna um ráðstöfun síldaraflans áður en reglugerðin er sett og mér finnst það sjálfsagt ákvæði en ég tek undir það með hv. 1. þm. Vestf. að mér finnst það íhugunarefni hvort skipstjórnarmenn eigi ekki líka að koma að þessari nefnd. Mér finnst sjálfsagt að menn hugleiði það.
    Ég vil svo ítreka ánægju mína með það að þetta frv. skuli vera komið fram. Ég tel að hér sé mjög þarft mál á ferðinni sem vonandi fær hraða afgreiðslu í nefnd og verður að lögum sem fyrst.