Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 15:07:10 (807)

[15:07]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að það er góð samstaða um þetta mál og ég styð það. Það er nauðsynlegt miðað við núverandi aðstæður að leggja það fram og auðvitað eru það atvinnusjónarmiðin sem verða til þess að það er gert því þau eru langmikilvægust í þessu efni. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hve gríðarleg atvinna er við söltun og aðra vinnslu síldar og flökun. Þannig að það skiptir miklu máli að missa ekki af þeirri lest og afkastageta flotans er það mikil eins og kom fram hér áðan hjá hv. 1. þm. Vestf. að hann getur veitt kvótann af síldinni á skömmum tíma.
    Hitt er svo annað mál og það vildi ég ítreka hér að það er ekki nóg að veiða síldina og vinna hana, það þarf að selja hana og því miður er það svo að það eru blikur á lofti í sölu síldar á öllum vígstöðvum. Það er erindi mitt í þessa umræðu að undirstrika það og hvetja hæstv. sjútvrh. til að beita þeim meðölum sem hann getur til þess að aðstoða í þeirri markaðsöflun því það er mjög áríðandi að hafa gát á öllum leiðum í því efni. Það er nú svo að síldarfrysting t.d. hefur verið veruleg á undanförnum árum og gefið ágætan hagnað í aðra hönd oft en sú síldarfrysting til Japans verður ekki nema svipur hjá sjón á þessari vertíð vegna framboðs annars staðar frá. Það þarf ekki að fjölyrða um Rússlandsmarkaðinn, það þorir tæpast nokkur að taka þá áhættu að salta á þann markað vegna óvissu um greiðslur. Og síðast en ekki síst keppast menn við það núna sem eru í þessari vinnslu að koma flakaðri síld út fyrir áramót vegna óvissu

um tollana til Svíþjóðar og Finnlands. Það er mjög alvarlegt mál, eins og komið hefur fram hér, að það hefur ekki verið mikið úr því gert m.a. af hæstv. forsrh. hér á Alþingi. Það er, miðað við markaðsstöðu síldarinnar núna, mjög alvarlegt ef tollarnir hækka á þessum markaði sem hefur verið reyndar aðalhaldreipið undanfarin ár í þeim erfiðleikum sem hafa gengið yfir. Ég vil þess vegna undirstrika það að það má einskis láta ófreistað í þeim efnum að fá samning um þessa tolla. En ég er því miður hræddur um að undirbúningur þessa máls sé ekki sem skyldi. Ég sé ekki aðra leið en taka það mál upp, ef Svíþjóð og Finnland fara í Evrópusambandið, í þeim tvíhliða samningum sem teknir verða upp við það bandalag og Alþingi hefur markað stefnu um að taka upp. En það þarf ekki að fara í grafgötur með það, það vita allir sem hér eru staddir og vita allir hv. þm. að ríkisstjórnin er bara ekkert einhuga í þessu máli. Er verið að undirbúa okkar upplegg í þessum samningum? Er verið að undirbúa okkar tillögugerð í sambandi við t.d. tolla á síld? Ég efast ekki um viljann í því en það vita allir hér að hæstv. utanrrh. er ekkert að undirbúa neina tvíhliða samninga við Evrópusambandið. Hann er að undirbúa inngöngu í sambandið. Allar hans umræður hafa hnigið að því. Ég vil því undirstrika það og spyrja hæstv. sjútvrh. að því með hverjum hætti sé verið að kanna þessi mál. Mér er það fullljóst að samningar hefjast auðvitað ekki fyrr en ljóst er hverjir ganga inn. En eigi að síður er það nauðsynlegt að ríkisstjórnin vinni í þessu máli og sé tilbúin með okkar tillögur og tilbúin með upplegg um það hverju við ætlum að ná fram í þeim samningum.
    Þetta var nú erindi mitt í þessa umræðu, að undirstrika það hvaða vinna fer fram á vettvangi ríkisstjórnarinnar, á vettvangi sjútvrn. í því að undirbúa hugsanlega samninga við EB um tollamál og annað. Það nægir eingöngu að ég ætla ekki að fara að taka upp almenna umræðu um tvíhliða samning við Evrópubandalagið hér undir þessum lið. Mér dettur það ekki í hug, mér nægir að heyra um það hvaða undirbúningur fer fram á þessu afmarkaða sviði.