Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 15:30:02 (810)

[15:29]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Sem svar við þessari spurningu er það að segja að það er ekki útilokað að hluti af þessum vanda gæti leyst sérstaklega með nánari skilgreiningu á gildandi samningum. En varðandi þau ummæli mín að við ættum hér sanngirniskröfu á hendur Evrópusambandinu vil ég aðeins segja það að í þeim samningum fólst hvorki bjartsýni né svartsýni heldur raunsæ lýsing á þeirri aðstöðu sem við erum í. Við eigum ekki lagalega kröfu á því að njóta áfram sömu tollkjara eða tollfrelsis varðandi sölu á síld til þessara tveggja landa sem stefna að inngöngu í Evrópusambandið. En við eigum siðferðilega kröfu á því og hljótum að byggja málflutning okkar á þeim sjónarmiðum og ég geri mér vitaskuld vonir um í ljósi þess sem ég hef sagt og þeirra athugana sem fram hafa farið að viðunandi lausn geti fengist.