Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 15:37:07 (815)

[15:37]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef engar athugasemdir í sjálfu sér við þetta frv. Hér er verið að taka upp á nýjan leik heimild til þess að geta takmarkað ráðstöfun síldar til bræðslu. Ég tel það eðlilegt, ekki síst til þess að sinna okkar mörkuðum og markaðsmálum. Ég tók hins vegar eftir því í máli hæstv. sjútvrh. að hann skýrði frá því sem hafði farið fram hjá mér að það stæði til að heimila frystiskipum síldveiðar og vinnslu á síld úti á sjó.
    Nú er það nú svo að það má alltaf deila um verkaskiptingu í flotanum. En að mínu mati hafa frystiskipin mikla möguleika umfram önnur skip í íslenska fiskiskipaflotanum. Þau geta sótt í úthafskarfann og þau geta farið í ýmis verkefni sem önnur skip geta ekki farið í. Ekki síst utan landhelginnar. Mér finnst það mjög umhugsunarvert ef það á að verða stefnan að hleypa frystiskipunum í síldveiðarnar. Í fyrsta lagi mun það skapa árekstra á miðunum. Hér áður fyrr höfðu loðnuskipin ekki heimild til síldveiða og það er alveg ljóst að með tilkomu loðnuskipanna hafa skapast vissir árekstrar á miðunum því þau eru með miklu stærri og meiri veiðarfæri. Ég vil hins vegar taka það fram að það var ekkert annað að gera vegna þess að minni bátarnir hafa ekki þá möguleika sem loðnuskipin hafa. En ef síðan á að bætast við að frystiskipin koma á miðin með sín veiðarfæri er alveg ljóst að það mun skapa árekstra milli bátaflotans og þessara skipa. Þau munu nota annars konar veiðarfæri, væntanlega flottroll og splundra torfunum, þannig að ég er mjög hugsi yfir því inn á hvaða braut er verið að fara. Þess vegna vil ég spyrjast fyrir um það hvaða markaðsrök mæla með því að nú skuli frystiskipin fara í síldveiðarnar. Ég veit vel að þau sækja á um þessa hluti. Auðvitað sækja menn á um alla hluti. Það hefur líka verið sótt á um það að frystiskip geti komið inn í humarveiðarnar og fryst humarinn úti á sjó. Það hefur sem betur fer verið staðið gegn því, ekki síst vegna atvinnusjónarmiða í landi því réttur skipanna má ekki verða svo mikill að þau leggi vinnsluna í landi gjörsamlega í rúst. Ég geri mér ekki grein fyrir því á þessari stundu hvaða áhrif þetta mun geta haft á síldarvinnslu í landi. Það eru takmarkaðir markaðir fyrir frysta síld og ég hef miklar efasemdir um það að frystiskipin skapi einhverja nýja markaði í sambandi við síldveiðarnar. Ég vil því biðja um upplýsingar um það hvernig á þessu stendur, hvaða rök eru fyrir því og hvort það sé almenn stefna að heimila frystiskipunum að stunda þessar veiðar og hvort það eigi í framhaldinu að leyfa þeim að fara inn í loðnuveiðarnar. Ef þau fá að fara inn í síldveiðarnar þá skil ég ekki að það sé hægt að standa gegn því að þau fari inn í loðnuveiðarnar því þar er um miklu stærri stofn að ræða og meiri veiðar. Þess vegna vildi ég gjarnan fá frekari útskýringar á þessu frá hæstv. sjútvrh.