Takmörkun á ráðstöfun síldar til bræðslu

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 15:45:54 (817)

[15:45]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það má vera að hæstv. sjútvrh. hafi eitthvað misskilið mig. Ég var ekki að mótmæla því að heimila síldveiðar í flottroll. Ég tel að það sé veiðarfæri sem verði að reyna og ekki síst í ljósi þess að flottrollsveiðar á síld eru að verða algengasta veiðiaðferðin í löndunum í kringum okkur. Ég var fyrst og fremst að vara við því að fara að hleypa frystiskipunum almennt inn í síldveiðarnar og það yrði farið að frysta síld um borð í þeim. Ég tel að það þurfi að liggja mjög gild rök fyrir ef á að fara út í það almennt. Síðan má í sjálfu sér alltaf gera tilraunir með einstaka hluti. Það er rétt hjá hæstv. sjútvrh., ég leyfði það á sínum tíma að eitt skip frysti humar úti á sjó. Það var þá prófað og ég tel að sú tilraun hafi leitt í ljós að það mæli engin rök með því að leyfa það almennt. Þess vegna var því hætt. Það má svo sem um það deila hvort það hafi ekki jafnvel legið fyrir strax þannig að það hafi ekki þurft að veita það leyfi. Ég ætla ekki að kveða upp neinn dóm um það en a.m.k. var sú stefna tekin í framhaldi af því að leyfa það ekki. Ég sé að við það hefur verið haldið og ég tel að það sé rétt. En auðvitað vitum við að það mun verða sótt á um þessa hluti því hver og einn lítur á þessi mál út frá sínum eigin hagsmunum en það er að sjálfsögðu hlutverk stjórnvalda í þessu sem öðru að líta á málin frá heildarhagsmunum og það tel ég að sé gert að því er varðar humarinn og ég vænti þess að það verði líka gert að því er varðar síldina. Ég heyri það á hæstv. sjútvrh. að hann vill fara varlega í því að þessi stóru skip fari inn í síldveiðarnar og þá heyrist mér að við séum ekki jafnósammála og hæstv. ráðherra lét í ljós í svari sínu.