Tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum

19. fundur
Miðvikudaginn 26. október 1994, kl. 15:49:05 (819)


[15:49]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Í októbermánuði árið 1944 voru samþykkt á Alþingi lög um tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu. Samkvæmt lögunum skyldi reisa og reka tilraunastöð í jarðrækt á þessum stað samkvæmt lögum nr. 64/1940, um rannsóknir og tilraunir í þágu landbúnaðarins. Með lögunum fékk tilraunastöðin endurgjalds- og kvaðalaust til eignar og umráða 165 ha úr austanverðri landareign Reykhólajarðar og fylgdu landinu hitaréttindi og að auki þrjár eyjar að eigin vali úr landareigninni til að fullnægja þörf vegna sérstakra rannsókna.
    Tilraunaráð jarðræktar tók við landinu og hóf uppbyggingu tilraunastöðvarinnar af myndarskap og dugnaði með ræktun og byggingum. Íbúðarhús var byggt á árunum 1947--1949 fyrir tilraunastjóra og annað starfsfólk. Fjárhús og hlaða voru byggð 1956 og 1957. Árið 1958 var byggt hús sem hýsti aðstöðu vegna innivinnu við jarðræktartilraunir, skrifstofu og einnig var þar lítil íbúð. Ekkert tún var á landinu, en túnræktun hófst strax vegna tilrauna og þess bústofns sem varð þá fljótt á tilraunabúinu. Árið 1990 var tún um 30 ha að stærð.
    Jarðræktartilraunir hófust strax og tök voru á. Fyrstu árin voru þær að mestu heima á Reykhólum, en upp úr 1950 voru hafnar dreifartilraunir í Reykhólasveit og voru þær á allnokkrum bæjum og stóðu fram um 1960. Á árunum frá 1960 til 1966 var fremur lítið framkvæmt af dreifðum tilraunum, en eftir það fóru þær vaxandi og 1972 hófust umfangsmiklar tilraunir frá Tilraunastöðinni á Reykhólum á Vestfjörðum sunnan af Barðaströnd og norður á Snæfjallaströnd og stóðu þær fram yfir 1980. Um þetta leyti var fyrst hægt að hefja dreifartilraunir um Vestfirði, áður var það ekki hægt vegna samgönguörðugleika. Tilraunir þessar gengu fyrst og fremst út á að kanna steinefnaþörf K-P-Ca-S. Árið 1984 hófust svo tilraunir í nyrðri hluta Strandasýslu og stóðu þær meðan tilraunastöðin var starfrækt. Um alllangt árabil voru gerðar grænfóðurstilraunir í Fóðuriðjunni í Ólafsdal. Viðfangsefni á sviði jarðræktar var fyrst og fremst áburðarþörf N-P-K-Ca-S o.fl., notkun og meðhöndlun búfjáráburðar, tegunda- og stofnaprófanir túngrasa. Í grænfóðurtilraunum voru prófaðir stofnar af ýmsum tegundum og afbrigði af þeim ásamt áburðarþörf. Búrekstur fyrstu árin var blandaður búskapur og var svo fram um 1960, en eftir fjárskipti 1960 í Reykjaneshólfi var búskapur eingöngu sauðfjárbúskapur og hófust þá strax rannsóknir og tilraunir með sauðfé og var aðalverkefni tilrauna í sauðfjárrækt ullarræktun og stóðu þær þar til starfsemi var hætt á Reykhólum 1990, en á árunum 1988--1990 voru flutt 135 lömb af Reykhólastofni að Hesti í Borgarfirði. Verkefni á sviði ullarræktar var að rækta stofn með mikla og góða alhvíta ull, lausa við gular og hvítar illhærur.
    Síðustu árin sem tilraunastöðin var starfrækt dró stórlega úr öllum tilraunum á sviði jarðræktar, þannig að umsvif á því sviði voru ekki nema einn fjórði af því sem mest var á árunum 1970--1980. Orsök þess voru minnkandi fjárveitingar ár frá ári. Árið 1990 var rekstri tilraunastöðvarinnar hætt og hefur Reykhólahreppur nú keypt land og aðrar eignir tilraunastöðvarinnar.
    Það frv. sem hér liggur fyrir um að leggja niður lög um tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum er því lagahreinsun og í fskj. með frv. fylgir umsögn fjmrn. Þar kemur fram að frv. feli ekki í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og landbn. Það er efnislega einfalt í sniðum eins og ég sagði, hér er um lagahreinsun að ræða.