Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 12:34:53 (832)

[12:34]
     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Við ræðum hér um utanríkismál á miklum breytingatímum eins og best sannast á því að í gær var gengið frá samningum á milli Jórdaníu og Ísraels, friðarsamningum, á þessu mikla átakasvæði og horfur eru á því að e.t.v. takist Ísraelum að gera friðarsamninga við öll sín nágrannaríki fyrir utan PLO, þannig að á þessum átakapunkti í veröldinni skapist nýtt ástand eins og svo víða annars staðar.
    Ég vil í upphafi máls míns, herra forseti, fá tækifæri til þess að greina frá ferð sem utanrmn. Alþingis fór til Washington hinn 12. og 13. maí sl. þar sem hún átti fundi með þingmönnum og embættismönnum og ræddi við þá um einkum fjögur atriði:
    1. Að kanna hvort taka mætti upp regluleg tvíhliða samskipti milli Alþingis og Bandaríkjaþings.
    2. Að ræða samskipti landanna á sviði varnar- og öryggismála á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 og með hliðsjón af bókun sem ríkisstjórnir landanna urðu sammála um 4. jan. 1994.
    3. Að ræða viðskiptatengsl landanna og kanna þá sérstaklega hvort gera mætti tvíhliða fríverslunarsamning milli landanna um leið og rætt yrði um afstöðu Bandaríkjastjórnar til þróunar NAFTA-samningsins.
    4. Að ræða hvalveiðar og útskýra sjónarmið Íslendinga í þeim efnum og fá fram hvort afstaða Bandaríkjamanna til málsins hefði breyst.
    Á vegum utanrmn. hefur verið samin ítarleg skýrsla um þetta mál sem liggur fyrir á vettvangi nefndarinnar og málið hefur verið rætt við hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh., en þó hefur nefndin í hyggju að vinna betur úr þeim málum sem á döfinni voru í ferð hennar til Washington. Þetta var fyrsta ferð sem farin hefur verið af þessu tagi af hálfu Alþingis til Washington til viðræðna við embættismenn og þingmenn, sérstaklega þingmenn. Við hittum í Bandaríkjaþingi bæði forustumenn utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og einnig áhrifamikla öldungardeildarþingmenn þar sem okkur gafst tækifæri til þess að greina frá sjónarmiðum Íslendinga. Sama má segja um viðræður okkar við embættismenn í utanríkisráðuneytinu, varnarmálaráðuneytinu og síðast en ekki síst í Hvíta húsinu sjálfu, þar sem við ræddum um tvíhliða málefni og alþjóðamál. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi ferð hafi verið hin gagnlegasta og það sé nauðsynlegt að huga að því í framtíðinni bæði að rækta tvíhliða samskipti okkar við Bandaríkin með þessum hætti og einnig við aðra aðila sem við eigum náið samstarf við og þar kann Evrópusambandið sérstaklega að koma upp í hugann með hliðsjón af hinum miklu tengslum sem við höfum við það og þá stöðu sem við höfum gagnvart því eins og málum er nú háttað.
    Ég vildi aðeins láta þessa getið hér, herra forseti, í upphafi máls míns þannig að þetta lægi fyrir í þingtíðindum. Þetta er fyrsta umræðan um utanríkismál sem fram fer eftir að við fórum í þessa ferð og mér þótti rétt að geta um þessa höfuðdrætti málsins hér í þessum umræðum. Einnig vil ég láta þess getið að nú á dögunum, hinn 17. okt., sótti ég sem formaður utanrmn. fund sem boðað var til af þingi Vestur-Evrópusambandsins og haldinn var í París, þar sem rætt var um málefni þess og mun ég víkja að því nánar síðar í máli mínu. En það færist í vöxt að formenn utanríkismálanefnda þjóðþinganna eru kallaðir saman til funda um brýn viðfangsefni í utanríkismálum og öryggismálum, enda er það eðlilegt því að þáttur þingmanna í mótun utanríkisstefnunnar er að verða virkari, bæði hér á landi og annars staðar og það er nauðsynlegt að á þingunum séu menn mjög virkir í þessu alþjóðastarfi. Ég held að við innan utanrmn. Alþingis höfum verið í nokkuð góðum takti við þessa þróun og starf nefndarinnar hefur tekið mið af því á undanförnum missirum.
    Varðandi ræðu hæstv. utanrrh. þá langar mig að fara yfir hana og segja álit mitt á ýmsu sem þar kemur fram. Almennt séð er ekki annað unnt að segja um þessa ræðu en að hún tekur á þeim málefnum sem við okkur blasa og brýnust eru í starfi okkar út á við og íslenska ríkisins við hagsmunagæslu íslensku þjóðarinnar. Ég tek undir það sem segir á bls. 3 í skýrslunni, að það sé nauðsynlegt að ná sem fyrst skynsamlegum samningum við Norðmenn um lausn deilunnar í Barentshafi, ef það má orða það svo, eða lausn ágreiningsmála þjóðanna um veiðirétt í Barentshafi og einnig varðandi önnur mál sem snerta sameiginlega hagsmuni á höfunum og þar vísa ég sérstaklega til síldveiða og karfaveiða. Ég held að það sé mjög brýnt að binda sem fyrst enda á þetta ástand sem nú ríkir og taka þar mið af þeirri þróun sem verið hefur á undanförnum tveimur árum þegar við Íslendingar höfum sýnt og sannað að unnt er að veiða þorsk í Smugunni sem Norðmenn sjálfir og alþjóðlegir sérfræðingar töldu ógerlegt nema veiðiþjóðin hefði jafnframt aðgang að lögsögum annaðhvort Rússlands eða Noregs. Íslenskir sjómenn hafa sýnt það á undanförnum tveimur árum að það er unnt að stunda arðbærar veiðar í Smugunni án þess að eiga aðgang að lögsögu Rússlands eða Noregs. Af þessu verða menn að taka mið þegar við okkur er samið um þessi mál, sem vonandi verður sem fyrst og vonandi kemur sem fyrst niðurstaða í þessu máli. Ég tek undir það sem fram kom um þetta, sérstaklega í stefnuræðu hæstv. forsrh. og ég tel að þar hafi komið fram stefnumörkun sem kunni að verða mönnum gott leiðarljós við lausn þessa viðkvæma máls og hvet til þess að til viðræðna verði áfram gengið við Norðmenn á grundvelli sem okkur hefur verið kynntur og er núna á embættismannastigi, þannig að menn geti kannað betur afstöðu hvers annars og þetta mál sé til lykta leitt.
    Varðandi hvalveiðar vil ég láta þess getið að í ferð okkar utanríkismálanefndarmanna til Washington var lögð rík áhersla á það af hálfu Bandaríkjastjórnar að kynna okkur afstöðu hennar til hvalveiðiþjóða. Þar höfum við fordæmi einmitt frá nágrannaþjóð okkar Norðmönnum. Þeir hafa stundað hrefnuveiðar núna í tvö sumur án þess að Bandaríkjamenn hafi gripið til þess að beita þá refsiaðgerðum, eins og má segja að sé lögbundið nema sérstakar aðstæður leysi forseta Bandaríkjanna undan því að grípa til refsiaðgerða gagnvart þjóðum sem veiða hvali og unnt er að líta á að sé gert í trássi við samþykktir Alþjóðahvalveiðiráðsins. Norðmenn hafa aðra stöðu en við að því leyti að þeir eru í Alþjóðahvalveiðiráðinu en gerðu fyrirvara 1983 þegar hvalveiðibannið var samþykkt á vettvangi ráðsins sem við gerðum ekki. Eins og menn muna var það samþykkt með eins atkvæðis mun hér á hinu háa Alþingi að Ísland mótmælti ekki hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þetta hefur verið okkur má segja nokkur fjötur um fót þegar rætt er um stöðu okkar á alþjóðavettvangi og í þjóðréttarlegu tilliti og ég tel mjög brýnt að þessari stöðu sé breytt og sé ekki annan veg til þess heldur en að við sækjum að nýju um aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu og gerumst aðilar með fyrirvara. Að við öðlumst gagnvart þeim þjóðum sem gera athugasemdir við hvalveiðar sömu stöðu og Norðmenn hafa nú og þá fáum við einnig þá stöðu gagnvart Bandaríkjunum sem hafa, eins og við vitum, ekki gripið til refsiaðgerða gagnvart Norðmönnum.
    Ég vil hvetja ríkisstjórnina til þess að leggja sem fyrst fram tillögu um þetta efni hér á Alþingi. Það liggur fyrir í ræðu hæstv. utanrrh. að hann telur rétt að við göngum á ný í Alþjóðahvalveiðiráðið með þeim fyrirvara að við áskiljum okkur rétt til veiða á ákveðnum hvalategundum. Þetta held ég að sé stefna sem við alþingismenn hljótum að velta rækilega fyrir okkur og ég get lýst því yfir fyrir mitt leyti að ég er henni eindregið fylgjandi. Hins vegar tel ég mjög mikilvægt jafnframt að af hálfu utanrrn. hefjist nú þegar vinna sem miðar að því að tryggja með öllum tiltækum ráðum að það verði ekki reynt að bregða fæti fyrir okkur ef við tökum þessa stefnu og sækjum um aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu með þessum hætti. Ég tel sjálfur að á því séu engir lögfræðilegir annmarkar, en betra er að undirbúa það mál vel þannig að það valdi ekki deilum eða lögfræðilegum þrætum.
    Varðandi Atlantshafsbandalagið þá er ég sammála því sem kemur fram í ræðu hæstv. ráðherra eða skýrslu hans, að það á ekki að lúta neitunarvaldi Rússlands innan Atlantshafsbandalagsins þegar teknar eru ákvarðanir um stækkun bandalagsins. Á hinn bóginn er þetta mjög viðamikið og stórt mál að taka ákvörðun um að stækka Atlantshafsbandalagið því í því fælist að bandalagsríkin skuldbyndu sig til þess að verja árás á hin nýju ríki eins og þau sem eru nú í bandalaginu og líta á árás á eitt þeirra sem árás á þau öll. Þannig að það yrði að endurskoða allar áætlanir og öll áform bandalagsins um varnarmál og það er talið mjög hæpið að á þessari stundu sé meiri hluti fyrir slíkum ákvörðunum í þeim 16 þjóðþingum sem yrðu að taka ákvarðanir um þetta efni. Því Atlantshafssáttmálanum yrði ekki breytt og Atlantshafsbandalagið yrði ekki stækkað nema það yrði borið undir þjóðþing allra aðildarríkjanna og það er mat manna nú að stuðningur við slíkt sé ekki fyrir hendi, sérstaklega í þeim ríkjum sem leggja mest af mörkum til varnarmálanna og á ég þá sérstaklega við Bandaríkin og Bretland. Innan Atlantshafsbandalagsins eru skiptar skoðanir um þetta, m.a. hafa þær komið fram milli varnarmálaráðherra Þýskalands annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar, en þetta mál er á döfinni og þetta kann að vera viðfangsefni sem við munum standa frammi fyrir sem íslenskir þingmenn fyrr en síðar ef þróunin er í þá átt eins og allt bendir til. Af hálfu Rússa er hins vegar litið þannig á að Atlantshafsbandalagið sé óvinveitt stofnun. Að mínu mati eru þeir enn í hugarfjörtrum kalda stríðsins þegar þeir líta á Atlantshafsbandalagið sem stofnun óvinveitta sér. Þeir líta á bandalagið öðrum augum heldur en t.d. Evrópusambandið og segja sem svo að þeir geti vel sætt sig við að ríki gerist aðilar að Evrópusambandinu en ekki að Atlantshafsbandalaginu. Sjálfir hafa Rússar lagt fram hugmyndir sem miða að því að Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu verði eins konar yfirstofnun í öryggismálum Evrópu og taki að verulegu leyti við af Atlantshafsbandalaginu, en þessar hugmyndir Rússa eiga ekki upp á pallborðið meðal annarra þjóða. Þarna er því um málefni að ræða sem verður einnig á dagskrá og við þurfum að velta fyrir okkur sem aðilar að Atlantshafsbandalaginu og aðilar að Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu og ýmsum öðrum evrópskum samtökum. Kem ég þá að því atriði sem nefnt er hér á bls. 7 í skýrslu ráðherrans þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það hlýtur að vera okkur umhugsunarefni að þessi þróun getur haft varhugaverð áhrif á öryggishagsmuni Íslands. Svo getur farið að stækkun ESB í norður og austur muni á endanum leiða til vaxandi einangrunar Íslands á sviði varnar- og öryggismála. Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu verður þá ekki nóg til þess að við getum tryggt hagsmuni okkar á þessu sviði.``
    Ég er ekki sammála þessari skoðun. Ég er ekki sammála þeirri skoðun að á meðan Ísland hefur tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og er aðili að Atlantshafsbandalaginu að þá muni stækkun Evrópusambandsins í norður og austur stuðla að einangrun Íslands. Raunar vek ég athygli á því að notkun orðsins einangrun í þessu sambandi og öðru samhengi sem varðar tengsl okkar við Evrópuþjóðirnar er ákaflega hættulegt og er þannig orð sem menn eiga að varast mjög að nota, sérstaklega þeir sem starfa að

stefnumótun í utanríkismálum. Það er ekki á stefnu Íslands að fylgja einangrunarstefnu í utanríkismálum. Það er á stefnu Íslands að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi og það erum við, en við gerum það auðvitað á íslenskum forsendum og með hagsmuni okkar í huga og við getum ekki fórnað meiri hagsmunum fyrir minni í því tilliti. Það er mjög hættulegt af hálfu stefnumótandi aðila á Íslandi að tönnlast í sífellu á því að við núverandi aðstæður séum við í einhverri sérstakri einangrunarhættu. Slíkt er frekar hugarfar hér heima heldur en raunveruleiki þegar menn velta fyrir sér stöðu þjóðarinnar í alþjóðlegu samstarfi og ber að varast að leggja of mikið út af því orði í umræðunum og það einfaldar umræðurnar einnig um of að mínu mati.
    Ég tel að aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu geti dugað okkur til þátttöku í umræðum um öryggis- og varnarmál í Evrópu og að Vestur-Evrópusambandið muni skilgreina hlutverk sitt með þeim hætti sem það sjálft ákveður. Það starfar samkvæmt sérstökum stofnsáttmála sem er upphaflega frá 1948 og var endurnýjaður 1954 og það er á valdi Vestur-Evrópusambandsins sjálfs að ákveða sína framtíð, það er ekki á valdi Evrópusambandsins. Það eru ríki innan Evrópusambandsins sem eiga minni aðild að Vestur-Evrópusambandinu en við, sem erum þó ekki innan Evrópusambandsins, og nefni ég þar Dani og Íra og það eru ríki að ganga í Evrópusambandið þessa mánuðina eins og Austurríki, Finnland og hugsanlega Svíþjóð, hlutlaus ríki sem hafa ekki í hyggju að ganga inn í Vestur-Evrópusambandið eða ganga inn í þetta öryggissamstarf í Evrópu eins og það liggur nú fyrir. Auk þess mun á ríkjaráðstefnunni sem hefst á vegum Evrópusambandsins 1996 verða tekin afstaða til þess hvernig eigi að þróa samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum. Ég tel að þessi klausa úr ræðu hæstv. ráðherra sem ég las standist ekki þá gagnrýni sem menn þurfa að hafa þegar rædd eru þessi mikilvægu mál og það sé ekkert sem bendi til þess að við séum að einangrast í þessum málum og að öryggishagsmunum Íslands sé vel borgið og sérstaklega með tilliti til þess að við höfum tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Það liggur ljóst fyrir að það er ekki ætlunin að rjúfa það samstarf, hvorki af okkar hálfu né af hálfu Bandaríkjanna. Ef til þess kæmi hins vegar að það samstarf rofnaði þá kynnu mál að líta öðruvísi út með íslenska öryggishagsmuni í huga, en á meðan það er í því fari sem nú er þá finnst mér þessi niðurstaða í ræðunni næsta fráleit. Einnig í ljósi þess að af hálfu Vestur-Evrópusambandsins er nú lögð meiri áhersla en áður á það að Evrópuþjóðirnar þurfi að gæta hagsmuna sinna á höfunum. Þar hefur François Léotard, varnarmálaráðherra Frakka, sérstaklega gengið fram fyrir skjöldu og sagt að Vestur-Evrópuríkin þurfi að huga að öryggisgæslu á höfunum og hagsmunum sínum á höfunum og það gera þau ekki eins og við vitum án þess að Ísland komi inn í þá mynd. Þannig að mér finnst ekkert benda til þess að í þessu tilliti sé Ísland að einangrast, en hins vegar þurfum við að sjálfsögðu að gæta okkar hagsmuna.
    Ég tek undir það að þungamiðjan í skýrslu hæstv. ráðherra snertir Evrópusambandið og tengsl okkar við það. Ég hef þegar lýst skoðun minni til öryggismálaþáttarins. Ég vil láta þá skoðun mína í ljós að fullyrðingar manna í Noregi, sem róa nú lífróður fyrir því að koma landi sínu inn í Evrópusambandið, sem ekkert er athugavert við, um að Evrópska efnahagssvæðið og samningar um það muni renna sitt skeið um áramótin eru ekki á rökum reistar. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir, af hálfu okkar Íslendinga, nógu traustar yfirlýsingar um það að við vitum að við getum haldið samskiptum okkar við Evrópusambandið lifandi og gangandi á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og við getum lagað stofnanir þess svæðis að breyttum aðstæðum. Um það þurfum við ekki að deila. Það liggur alveg ljóst fyrir og ríkisstjórnin hefur fullt umboð Alþingis til að ganga frá slíkum samningum og minni ég þar á ályktun okkar frá 5. maí 1993.
    Varðandi skýrslur Háskóla Íslands þá finnst mér ótímabært að tjá mig um þær. Þær liggja ekki fyrir. Það eru nokkrar komnar fram. Það liggur ekki fyrir í heild hver er afstaða þeirra aðila sem háskólinn hefur falið að taka á þessu máli. Og þótt menn telji kosti og galla og segi að kostirnir séu fleiri en gallarnir, þá getur einn galli verið svo stórvægilegur að hann setur skugga yfir alla kostina sem menn kalla svo og eitt atriði getur verið svo mikilvægt frá sjónarmiði Íslendinga að allt annað víki til hliðar. Mér finnst að við eigum ekki að flagga þessum skýrslum eða ræða um þær fyrr en málið liggur fyrir í heild og fyrr en þær eru þá opinber gögn sem menn geta velt fyrir sér og gagnrýnt án þess að tala um þær í hálfkveðnum vísum. Við þurfum að skoða málið í heild og það liggur ekki fyrir enn þá af háskólans hálfu. Á vettvangi utanrmn. verða þessi mál tekin til athugunar. Það er ákvörðun nefndarinnar að gera það þegar skýrslurnar liggja fyrir og við munum fjalla um málið og kynna okkur einstaka þætti þess og vonandi ræða við skýrsluhöfunda, ef þeir gefa sig fram, en eins og komið hefur fram hér eru skýrslurnar að verulegu leyti nafnlausar.
    Það hafa verið nokkrar umræður um samning Norðmanna í sjávarútvegsmálum og það hefur verið látið í það skína að sá samningur sé mikill fyrirmyndarsamningur. Ég tek ekki undir það og ég vek athygli á því að erlendir aðilar, aðrir en norskir aðilar, sem hafa lagt mat sitt á þennan samning Norðmanna um sjávarútvegsmál segja, og bendi ég þar á grein í blaðinu Fishing News sem birtist 9. sept. sl., þar sem því er haldið blákalt fram af höfundi að Norðmenn hafi náð betri sjávarútvegssamningi við Evrópusambandið eða Evrópubandalagið árið 1972 heldur en þeir hafa nú í höndunum. Árið 1972 felldu Norðmenn aðildina að Evrópusambandinu eða Efnahagsbandalagi Evrópu, eins og það hét víst þá, á þeirri forsendu að þessi sjávarútvegssamningur væri ekki nógu góður. Þetta er hlutlægt mat sérfræðinga, annarra heldur en Norðmanna, á þessu og þetta er ekki íslenskt mat. Þetta er mat breskra sérfræðinga sem segja þetta og telja

að þarna hafi Norðmenn samið um verri kjör heldur en þeir gerðu 1972, enda eru Norðmenn núna, eins og við vitum, betur staddir að öðru leyti því olíuvinnsla og iðnaður skipta meira máli nú hjá þeim heldur en sjávarútvegur. Þannig að mér finnst fráleitt að vera að bera það á borð fyrir okkur hér að vegna þessa sjávarútvegssamnings eigum við sérstaklega að huga að aðild að Evrópusambandinu. Við yrðum að semja, ef til þess kæmi, á allt öðrum forsendum.
    Hér er sagt í skýrslunni og ræðunni að árið 1989, það er árið sem er nefnt, hafi orðið gerbreytingar í heiminum og það sé ein sú forsenda fyrir því að Finnar og Austurríkismenn og þessar þjóðir ákváðu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég dreg í efa að þetta sé rétt. Austurríkismenn að vísu en ekki Finnar, Svíar og Norðmenn. Í mars 1989 var haldinn fundur í Ósló og þar var ákveðið að tillögu Jacques Delors, vegna ræðu sem hann flutti í janúar 1989, að ganga til samninga um Evrópska efnahagssvæðið. Þannig að það er rangt ártal hér þegar sagt er og miðað við 1989. Það var ekki fyrr en á árinu 1992 sem þessar þrjár þjóðir tóku ákvarðanir um það að tengjast Evrópusambandinu og sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá voru heitar umræður hér á Alþingi Íslendinga um þetta mál og þá var því haldið fram og liggur fyrir í þingtíðindum og þarf ég ekki að endurtaka það fyrir hv. þingmönnum. Af hálfu íslenskra stjórnvalda var sagt: Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu kemur í veg fyrir að við þurfum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Með því að staðfesta þann samning sem við vorum að fjalla um á árinu 1992 vorum við að tryggja okkar hagsmuni gagnvart Evrópusambandinu þannig að það væri ástæðulaust fyrir okkur að sækja um aðild að Evrópusambandinu.
    Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að við höfum í huga þegar við lítum á þessar umræður og ég er þeirrar skoðunar að ef við hefðum lagt hvort tveggja undir á sama tíma á árinu 1992, aðild að Evrópusambandinu og aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, þá hefði hvort tveggja verið fellt. Það hefði ekki náðst meiri hluti á Alþingi fyrir aðild að Evrópska efnahagssvæðinu ef undir hefði legið á sama tíma spurningin um það að við gerðumst aðilar að Evrópusambandinu. Og ég tel að það sé ekki við hæfi, ef ég má kveða svo fast að orði, að láta nú eins og þetta hafi legið fyrir árið 1989. Það lá ekki fyrir árið 1989 og það lá ekki einu sinni fyrir árið 1992 að þetta væri nauðsynlegt fyrir okkur. Þess vegna finnst mér --- og vegna þess að í ræðunni er einnig talað um hættu á vaxandi einangrun og notað það orð, að ég tel að við verðum að nálgast þetta mál með öðrum hætti. Ég tek undir það sem hér segir í ræðunni: ,,Umræða um framtíð Íslands í nýju evrópsku samhengi er því orðin tímabær.`` Þetta er rétt. Það er tímabært að ræða þetta en við verðum að ræða það á þeim forsendum sem fyrir liggja til að við séum sjálfum okkur samkvæmir og við gerum það ekki nema við lítum á það sem lagt var fyrir hér á þingi og hvernig við höfum starfað hér á þinginu, hvaða sameiginlegri niðurstöðu við komumst að í maí 1993. Þetta tel ég að sé nauðsynlegt að hafa í huga þannig að við séum sjálfum okkur samkvæmir í þessu mikilvæga máli, þessu brýnasta utanríkismáli okkar nú um stundir og til þess að umræður um það hér verði innan lands á þeim forsendum að sem víðtækust sátt skapist um málsmeðferðina en ekki verðið staðið að henni með það í huga að stofna til deilna.
    Herra forseti. Tíminn er naumur. Ég vil aðeins varðandi GATT láta þess getið að ég hef haft mínar hugmyndir varðandi formið á því máli í þinginu, hvort það dugi fyrir okkur. Ég er sammála aðildinni að GATT og tel sjálfsagt að við stefnum að því að ganga frá því máli nú fyrir áramótin á Alþingi en ég hef varpað þeirri spurningu fram oftar en einu sinni: Er nægilegt fyrir okkur að ganga frá aðildinni með því að veita heimild í þáltill. til fullgildingar eða kann að vera skynsamlegra að staðfesta einhvern hluta GATT-samningsins með lögum þannig að ekkert fari á milli mála að hann hafi lagagildi hér eða þau atriði hans sem lúta sérstaklega að samkeppni og öðru slíku?
    Ég vil varðandi hálfrar aldar afmæli Sameinuðu þjóðanna láta þess getið að mér finnst að við bíðum svara um hverjir eigi aðild að þeirri nefnd sem hefur verið sett á laggirnar í því efni til að undirbúa þátttöku okkar í því afmæli. Mér finnst annað ógerlegt en að Félag Sameinuðu þjóðanna eigi þar aðild og sé virkur aðili í þessu. Þessi félög eru starfandi um heim allan og gegna ákveðnu hlutverki við að rækta tengsl við almenning í þjóðlöndunum. Mér fyndist freklega fram hjá þessu félagi gengið hér ef það væri ekki virkur þátttakandi í undirbúningnum og við ættum að nota þetta afmæli til þess að stuðla að virkni þess í umræðum hér um málefni Sameinuðu þjóðanna.
    Að lokum, herra forseti, kaflinn um utanríkisþjónustuna. Í sumar urðu nokkrar deilur vegna ráðstöfunar á embættum í utanríkisþjónustunni og hreyfði ég þar athugasemdum. Þær lutu ekki að því að ég væri að gagnrýna ákveðna einstaklinga heldur var ég að gagnrýna formið. Ég taldi óviðunandi að í Bretlandi væri ekki starfandi fastskipaður sendiherra og það væri hægt að leysa úr vandkvæðum sem þar kynnu að skapast með öðrum hætti en raun ber vitni um. Ég hef einnig gagnrýnt að sá sem var síðan valinn til að gegna til bráðabirgða störfum sem forstöðumaður hefði ekki full ,,diplómatísk`` réttindi. Utanrrn. gerði þar bragarbót og skipaði viðkomandi aðila embættismann í ráðuneytinu og leysti úr þeim vanda sem skapaðist og ég hef ekki formlegar athugasemdir við málið eins og frá því hefur verið gengið.
    Umræður um þetta mál leiddu athygli mína að því að lögin um utanríkisþjónustuna frá 1971 eru að mínu mati ekki í takt við tímann. Ég tel mjög brýnt og vildi skora á hæstv. utanrrh. að hann beitti sér fyrir endurskoðun á þessum lögum. Eins og menn sjá þegar lögin eru lesin þá er ekki gert ráð fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á ráðuneytinu í þeim. Ég mundi bjóða þar fram krafta mína og ég held að ég tali fyrir hönd utanrmn. að hún mundi vilja leggja lið endurskoðun á lögunum um utanríkisþjónustu þannig

að þau væru í samræmi við þann veruleika sem nú er á þessu sviði.
    Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Ég get þó ekki stillt mig um það í lok ræðu minnar að vekja athygli á málflutningi framsóknarmanna um Evrópska efnahagssvæðið. Mér finnst furðulegt að hlýða hvað eftir annað á þessi ólíku sjónarmið þeirra til þessa máls. Nýkjörinn formaður flokksins flutti í lok ágúst eða byrjun september ræðu á þingi ungra framsóknarmanna þar sem hann lýsti yfir að ef flokkurinn hefði verið í ríkisstjórn þegar samningurinn var borinn undir atkvæði hefði hann samþykkt hann. Síðan kemur upp fyrrv. þingflokksformaður flokksins, hv þm. Páll Pétursson, og lýsir yfir að Framsfl. muni að vísu ekki beita sér fyrir því að samningnum verði sagt upp en segir um leið að hann sé stjórnarskrárbrot og hættulegt fullveldisafsal. Það virðist svo að mat framsóknarmanna á gildi stjórnarskrárinnar og ákvæðum hennar fari eftir því hvar þeir sitja í valdastólum. Þessi afstaða er með eindæmum og henni mun ekki verða gleymt þótt víðtækar sættir hafi nú tekist um að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið eigi að vera forsenda fyrir framtíðarsamskiptum okkar við Evrópusambandið þar til við tökum aðrar ákvarðanir ef hagsmunir okkar leyfa að þær séu teknar.            [Fundarhlé. --- 13:05]