Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 14:19:23 (843)

[14:19]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu ræða utanrrh. um utanríkismál á Alþingi og ég ætla hér að reyna að koma inn á nokkur atriði þessarar ræðu á þeim skamma tíma sem ég hef til umráða.
    Það er þá fyrst þess að geta að við höfum horft upp á miklar breytingar á heimsmálum á undanförnum árum og sú þróun heldur áfram. Ef ég horfi svona yfir heiminn og velti því fyrir mér hvað helst er að gerast þar, þá auðvitað blasir við hin tvískipta Evrópa. Annars vegar er Vestur-Evrópa með Evrópusambandið í broddi fylkingar þar sem stefnir í stækkun þess bandalags og enginn veit svo sem hvernig það á eftir að þróast á næstu árum. Hins vegar er svo Austur-Evrópa með öll þau gífurlegu vandamál sem þar blasa við, en það má reyndar segja þegar við notum hugtakið Austur-Evrópa að það er auðvitað tvískipt líka. Ríki eins og Pólland og Tékkland eru heldur að rétta úr kútnum meðan ástandið er mjög alvarlegt austar í álfunni í löndum eins og t.d. Úkraínu, þar sem þúsundir ef ekki milljónir manna lifa orðið á matargjöfum frá m.a. Rauða krossinum. Þar er afar alvarlegt ástand. Og ég er sannfærð um það að á næstu árum á orka Evrópusambandsins og þeirra Vestur-Evrópuríkja sem kunna að standa utan þess að miklu leyti eftir að fara í aðstoð við Austur-Evrópu. Það er óhjákvæmilegt að veita þeim bæði aðstoð í mannréttindamálum og þróun síns stjórnkerfis í átt til lýðræðislegri stjórnarhátta og það þarf að reyna að stilla þar til friðar og þeir þurfa að fá bæði efnahags- og þróunaraðstoð. Þannig að ég er alveg sannfærð um það að þessi nafli alheimsins, sem sumum finnst vera í Evrópusambandinu, á eftir að snúa sér fyrst og fremst að Austur-Evrópu á næstu árum.
    Ef við lítum aðeins á Bandaríkin þá er þar uppgangur í efnahagslífinu og það hefur sýnt sig að hinni nýju stjórn Clintons Bandaríkjaforseta hefur tekist að hleypa þar fjöri í efnahagslífið. Þeim hefur tekist að skapa, ef ég man rétt, 1.400 þús. ný störf á þeim 21 mánuði sem stjórnin hefur þar starfað. En það gengur á ýmsu í utanríkismálunum, þar sem annars er vegar að finna leifar hins gamla tíma, eins og kom fram í atkvæðagreiðslunni hjá Sameinuðu þjóðunum í gær um Kúbumálið og þennan tvískinnung sem gætir í utanríkisstefnu Bandaríkjanna og felst m.a í því að þeir eru mjög að leita eftir auknum samskiptum við Kína þrátt fyrir ítrekuð mannréttindabrot Kínverja og skort þeirra á lýðræði. En síðan halda Bandaríkin Kúbu í heljargreipum á grundvelli þess að þar ríki hvorki lýðræði né að mannréttindi séu virt.
    Það var mjög merkilegt að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla í Bandaríkjunum um Haítí-málið og sýnir kannski í hnotskurn þann vanda sem Bandaríkjaforseti er í því. Því það var eiginlega alveg sama hvað hann gerði, hann var stöðugt skammaður af fjölmiðlum og það var aldeilis ekki verið að meta það að honum tókst með sínum aðgerðum að koma í veg fyrir mikið blóðbað og enn verri innanlandsátök á Haítí en orðið hefði ef þar hefði orðið innrás. En hann var skammaður hvað sem hann gerði og það er svona tákn um þá miklu andstöðu sem hann hefur mætt og hans stefna.
    Hins vegar hefur stefna Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum breyst allverulega, sem m.a. kom fram á mannréttindaráðstefnunni í Kaíró, þar sem Bandaríkin beittu sér verulega sem talsmaður umbóta og mannréttinda og þess sjónarmiðs sem hér hefur verið tíundað, að besta leiðin bæði til þess að draga úr mannfjölgun og til þess að bæta ástandið í heiminum sé auðvitað að styðja við bak kvenna, að mennta konur, að kenna þeim á sitt samfélag, að kenna þeim hvernig hægt er að bæta heilsuna, hvernig hægt er

að verja börnin fyrir sjúkdómum og jafnframt að bæta stöðu þeirra almennt þannig að þær komi í veg fyrir barneignir. En þar er við ramman reip að draga og þar koma trúarbrögðin ekki síst inn í myndina og ég get nefnt það hér, sem ég hef gert áður, að mér finnst kaþólska kirkjan sýna ábyrgðarleysi í sinni afstöðu til mannfjölgunar í heiminum. Mér dettur þá í hug það sem einn af fulltrúum Bandaríkjastjórnar á ráðstefnunni í Kaíró eiginlega hreytti út úr sér þegar hún spurði: Hvað er Vatíkanið eiginlega að gera hér? Og það er í rauninni furðulegt hvað þessi stofnun, sem alls ekki er ríki, hefur mikil áhrif og mikið vald á alþjóðlegum vettvangi. Því þetta er stofnun, alþjóðastofnun, en ekki ríki. Ef ég man rétt, þá eru eitthvað á milli 600 og 700 íbúar í Vatíkaninu.
    Í Mið-Austurlöndum hefur sem betur fer átt sér stað friðsamleg þróun, þó að enn þá sjái alls ekki fyrir endann á þeim deilum sem þar hafa verið. Og mér þykir nú norska Nóbelsverðlaunanefndin hafa verið nokkuð fljót á sér að veita þeim friðarverðlaun, Jassir Arafat og Rabin, forsætisráðherra Ísraels, meðan allt er þar logandi í óeirðum og allsherjarverkfall sem þar var í gær. Málið er alls ekki í höfn og þetta minnir mig nú á það þegar þeir fengu friðarverðlaun, Le Duc Tho og Henry Kissinger, tveimur árum áður en styrjöldinni í Víetnam lauk. Ég tel að það sé verið að gera heldur lítið úr þessum verðlaunum með því að verðlauna þessa menn sem hafa að baki sér gríðarleg mannréttindabrot og áratuga átök og hryðjuverk. Þannig að mér finnst þetta nú ekki til mikillar fyrirmyndar.
    Ef sjónum er beint að Asíu þá vekur mesta athygli þróunin í Kína og sá mikli efnahagsuppgangur sem þar er og enginn veit hvaða áhrif mun hafa á efnahagslíf í heiminum á næstu árum. En það kann auðvitað að bregða til beggja átta, annars vegar það að Kína dragi til sín mikið fjármagn og fjárfestingar stórfyrirtækja geti haft áhrif á allan heiminn, en hins vegar hafa menn líka bent á það að Kínverjar eru svo gríðarlega fjölmennir og ef þeirra lífskjör batna til mikilla muna þá getur það valdið gífurlegri mengun í heiminum. Þegar þeir bætast við sem stórneytendur á borð við okkur Vesturlandabúa, þessi óhemjulegi fjöldi fólks, þá spyrja menn, hvernig í ósköpunum á náttúran að afbera það?
    Í Afríku er þróunin í Suður-Afríku kannski það sem ber hæst og í raun og veru hefur verið stórkostlegt að fylgjast með því sem þar hefur gerst þó að enn séu þar nokkur átök og þar ber auðvitað hæst nafn Nelsons Mandela.
    Allar þessar breytingar og þessi þróun sem hefur átt sér stað vekur spurningar hér: Hvað þýðir þetta fyrir okkur? Hvaða áhrif hefur þróun heimsmála á okkur? Ég held einmitt að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að skoða stöðu okkar upp á nýtt og að skilgreina hvað við viljum gera, hverju viljum við sinna í utanríkismálum og utanríkisþjónustu. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að við Íslendingar eigum að marka okkur bás sem talsmenn mannréttinda, friðar, lýðræðis og ég vildi að ég gæti bætt við jafnréttis. En hvað varðar það síðasttalda þá eigum við svo langt í land hér að ég held að við getum ekki státað af miklu í þeim efnum þó að margir haldi að ástandið hér sé miklu skárra en það er í jafnréttismálum karla og kvenna.
    Hvað varðar alþjóðasamstarf, sem fer sífellt vaxandi, þá held ég að við þurfum virkilega að skoða það hvað við ráðum við og hve miklu við viljum kosta til. Það tengist m.a. umræðum um fækkun þingmanna og fleira slíkt. Ég fæ ekki betur séð en við hér á Alþingi eigum fullt í fangi með að sinna því alþjóðasamstarfi sem við erum í, en í ljósi þessara breytinga þurfum við auðvitað að fara í gegnum þetta allt. Ég treysti mér ekki til að svara því hér og nú hvort við eigum að hætta í einhverjum samtökum eða breyta áherslum. Þó get ég nefnt það að ég held að við eigum að beina sjónum miklu meira að Sameinuðu þjóðunum en við höfum gert til þessa.
    Við þurfum líka að skoða og skilgreina öryggishagsmuni okkar. Þeir felast ekki í því lengur að óttast það að við verðum fyrir árásum úr einhverri átt, heldur eru meginöryggishagsmunir Íslendinga þeir hvernig umhverfisvernd er háttað og hversu öryggi í umhverfismálum er mikið. Þar liggja undir allir lífshagsmunir okkar, að okkur takist að stuðla að verndun lífríkisins í hafinu og verndun sjávarins.
    Tími minn styttist óðum, virðulegi forseti, en mig langar aðeins að reyna að nefna hér örfá mál og það kemur þá að sviði mannréttindamála. Nú langar mig til þess að hrósa hæstv. utanrrh. aðeins og bregður þá nýrra við. Í fyrra vöktum við kvennalistakonur athygli á málum Austur-Tímor, sem er eyja við strendur Indónesíu, sem varð fyrir innrás árið 1975. Það gerðist þegar Gunnar Pálsson flutti ræðu fyrir hönd Íslands nú nýverið á allsherjarþinginu að hann tók dæmi af Austur-Tímor. Ég get upplýst það hér að það var eftir þessu tekið meðal þeirra sem er annt um hagsmuni Austur-Tímors og hafa verið að reyna að vekja athygli á málum þar og ég vil þakka fyrir þetta. Ég tel þetta mjög mikils virði og þetta tengist því að Íslendingar tali máli mannréttinda og ekki síst lítilla þjóða sem eiga í vök að verjast og ég get alveg sagt að þetta er mjög mikils metið af þeim sem þarna eiga í hlut.
    Það var aðeins minnst hér áður á Kúbumálið, atkvæðagreiðsluna á allsherjarþinginu í gær og ég vil biðja hæstv. utanrrh. að skýra fyrir okkur þá afstöðu Íslands að sitja hjá. Mér finnst felast mótsögn í þessu. Ég skil ekki hvers vegna Ísland stillir sér ekki upp við hlið Norðurlandanna. Hæstv. utanrrh. hefur vitnað mikið í stefnu Ingvars Carlssonar hér á undanförnum dögum og ég spyr nú hvort hann treysti ekki Ingvari Carlssyni í utanríkismálum fyrst hann treystir honum svona vel í efnahagsmálum og að maður tali nú ekki um í jafnréttismálum. ( Gripið fram í: Í Evrópumálum.) Já, og jafnvel í Evrópumálum, einmitt, þar er kratasamstaðan lifandi komin, alþjóðahyggja jafnaðarmanna. En kjarni málsins er sá að það eru auðvitað framin mannréttindabrot í fjölda ríkja í heiminum og mér finnst vera mótsögn í því að halda uppi viðskiptabanni á Kúbu meðan við erum að opna skrifstofu í Kína þar sem því miður eiga sér stað mikil mannréttindabrot.
    Aðeins um kvennaráðstefnuna í Peking. Þar skortir auðvitað mjög á það að umræður eigi sér stað í okkar þjóðfélagi um þá ráðstefnu og hvernig að henni verði staðið, hvaða stefnu Íslendingar vilji halda þar uppi. Þessi ráðstefna verður í tvennu lagi eins og fyrri ráðstefnur. Það er annars vegar opinber ráðstefna og hins vegar ráðstefna þar sem félagasamtök af ýmsu tagi koma saman. Þegar ég var í Bandaríkjunum í september þá átti ég þess kost að sitja eina af undirbúningsráðstefnum Bandaríkjastjórnar. Bandaríkjastjórn heldur, ef ég man rétt, fjórar eða fimm slíkar undirbúningsráðstefnur þar sem kvennasamtök og þeir sem hafa áhuga hafa verið kallaðir til til þess einmitt að búa til forgangsröð Bandaríkjanna. Hvað er það sem Bandaríkin vilja leggja áherslu á? Ég held að við þurfum að standa þannig að málum hér að það verði hér mikil og góð umræða um það hvað við viljum gera á þessari ráðstefnu. Þarna gefst tækifæri til þess að taka bæði upp mannréttindamál, þar á meðal ástandið í Tíbet, sem við þurfum líka að vekja athygli á og svo auðvitað það hvernig við getum bætt stöðu kvenna í heiminum og hér á Íslandi.