Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 14:35:17 (844)

[14:35]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ræða sú sem hæstv. utanrrh. flutti hér í upphafi fundarins var athyglisverð fyrir margra hluta sakir og er full ástæða til þess að þakka honum fyrir það. Margt af því sem þar kemur fram er ég mjög sáttur við. Ég mun hins vegar fjalla fyrst og fremst um þau atriði sem ég tel til tíðinda og hygg að ekki séu sterkar forsendur fluttar fyrir í ræðu utanrrh. en það markar fyrst og fremst afstöðu Íslendinga til þróunarinnar í Evrópu og sambandsins við ESB. Staða mála nú er sú að við höfum lokið undir forustu hæstv. utanrrh. samningunum um Evrópskt efnahagssvæði með dyggum stuðningi Sjálfstfl. Vinna þarf að gerð tvíhliða samnings við Evrópusambandið sem þó hefst naumast fyrr en eftir að ljóst er hvernig atkvæðagreiðslum í Svíþjóð og Noregi reiðir af. Því starfi sem hófst þegar samningaferli um EES hófst 1989 er ekki lokið enn. Stefna ríkisstjórnarinnar er óbreytt. Ég tek það fram að stefna ríkisstjórnarinnar er óbreytt í þessu máli og fyrir liggur ályktun Alþingis um næstu skref í málinu sem er að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins. Það er þess vegna mjög athyglisvert að hæstv. utanrrh. skuli telja það skynsamlegt nú að stefnunni verði breytt, en að því er vikið í ræðu hæstv. ráðherra, og að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Þetta mál styður ráðherrann aðallega hugleiðingum um áhrif og áhrifaleysi Íslands á þróun mála innan Evrópusambandsins. En hann styður mál sitt einnig hugleiðingum um möguleika á því að sérstaða Íslands í sjávarútvegsmálum verði e.t.v. viðurkennd í samningaviðræðum.
    Aðildarumsókn að Evrópusambandinu snertir hins vegar íslensk stjórnmál og alþjóðastjórnmál með mun víðtækari hætti en fram kemur í ræðu hæstv. ráðherra. Ég verð að segja eins og er að mér finnst að mjög margir þættir sem er fjallað um í þessari ræðu komi inn á þróun stjórnmála hér og alþjóðlega þróun stjórnmála með mjög yfirborðskenndum hætti, svo yfirborðskenndum að það hlýtur að veikja tiltrú manna á þennan málflutning.
    Aðildarumsókn að Evrópusambandinu snertir að sjálfsögðu mun fleira en sjávarútvegsmál og viðskiptamál. Það snertir öryggis- og efnahagsþróun Evrópu, það snertir stjórnmálalegt sjálfstæði Íslendinga og stöðu þeirra gagnvart ríkjum sem standa utan Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin hefur falið stofnunum Háskóla Íslands að gera úttekt á því hvaða þýðingu það hefði fyrir Ísland að standa utan Evrópusambandsins eða gerast aðili. Á þessar skýrslur er minnst í ræðu hæstv. utanrrh. en eins og hefur komið fram í umræðunni þá hafa þessar skýrslur ekki verið gerðar að opinberum plöggum enn og þótt þær séu athyglisvert framlag til umræðunnar um stöðu Íslands þá hljóta þær sem slíkar að verða tilefni sérstakrar umfjöllunar á Alþingi. Ég ætla hins vegar að segja það hér og nú þó að þessar skýrslur séu ekki sjálfar til umfjöllunar að að svo miklu leyti sem ég hef haft tækifæri til þess að kynna mér efni þeirra þá bera þær mikinn keim af því sem ætti að kalla pólitíska ráðgjöf. Í skýrslunum ber talsvert á klisjukenndum fullyrðingum og þar er að finna athyglisverðar eyður sem gera það að verkum að ekki er hægt að líta á skýrslurnar sem óhlutdræga umfjöllun.
    Hrun Sovétríkjanna og leppríkja þeirra er sá meginatburður sem Evrópumálin hafa snúist um sl. fimm ár. Hafi hrun Berlínarmúrsins opnað nýja möguleika og nýjar hættur þá er ljóst að við erum enn þá stödd í dyragættinni. Sú fullyrðing að við séum enn stödd í dyragættinni á við um Evrópuþjóðirnar í heild, bæði Mið- og Austur-Evrópuríkin, það á við um ESB-ríkin, þau ríki sem nú knýja dyra hjá Evrópusambandinu og eins hin sem standa utan. Á það er réttilega bent í skýrslu utanrrh. á bls. 11 að samningaferlið um EES-samninginn hafi hafist um þær mundir sem Sovétríkin voru að liðast í sundur. Þetta er að vísu efnisatriði málsins en þó mun veigaminna efnisatriði en hitt að þróunarferlið sem leiddi til Maastricht-samkomulagsins var í undirbúningi og mjög langt komið þegar hinar skyndilegu breytingar urðu austan járntjaldsins. Maastricht-samkomulagið er að allri gerð afsprengi kalda stríðsins en ekki svar við nýrri stöðu í Evrópu. Maastricht-samkomulagið er sköpunarverk manna sem höfðu mótað skoðanir sínar á eðli og hlutverki sameinaðrar Evrópu í ljósi þeirrar einföldu staðreyndar að risavaxin heimsveldi deildu með sér úrslitaáhrifum á stjórnmál heimsins. Maastricht-draumsýnin er hugljómun um evrópskt ofurveldi samkeppnishæft við Sovétríkin og Bandaríkin og efnahagsstórveldið Japan. Maastricht var og er draumur um efnahagslega og hernaðarlega sjálfstæða Vestur-Evrópu sem fórnar hagsmunum þjóðríkja sinna til að efla heildina í alþjóðlegri samkeppni um völd og áhrif.
    Það er ljóst að samrunaferli Evrópusambandsins, þessi hátimbraða bygging, var ekki smíðuð af mikilli sannfæringu heldur með hálfum hug eins og þjóðaratkvæðagreiðsla í Danmörku og Frakklandi sýndu. Enn þá augljósari er þó sú staðreynd að meðal stofnana Evrópu, og með stofnun á ég þá við víðtæka merkingu þess hugtaks, sem nú eru að reyna að aðlaga sig að nýjum aðstæðum í Evrópu er Evrópusambandið sjálft, Evrópusambandið á grundvelli Maastricht-samkomulagsins, einna skemmst á veg komið og situr fastast á þröskuldi nýrra tíma.
    Mér finnst rétt að árétta þennan skilning minn á þróun Evrópumálanna, samrunaþróuninni í Vestur-Evrópu sem kristallaðist í hálfvolgu samþykki Maastricht-samkomulagsins er ekki að mínu mati svar við nýjum og breyttum aðstæðum í Evrópu eftir hrun Sovétríkjanna og endalok kalda stríðsins. Samrunaþróunin er miklu frekar lokaþáttur í þróunarferli sem er beint afsprengi kalda stríðsins eins og svo margar fjölþjóðlegar stofnanir sem setja svip sinn á Evrópu í dag. Þar nefni ég sérstaklega RÖSE og NATO.
    Ég hef miklar efasemdir um það að Evrópusambandið í því fari sem það er nú reynist fært um að takast á við þau vandamál sem við Evrópuríkjunum blasa eftir hrun sósíalismans. Fyrir dyrum stendur ekki aðeins að Mið- og Austur-Evrópa lagi sig að Evrópusambandinu. Það er óhjákvæmilegt að Evrópusambandið lagi sig að nýjum raunveruleika og það verður ekki gert með áframhaldandi samrunaferli.
    Það sakar ekki að rifja það upp, því að það hefur fullkomlega vantað í alla umfjöllun hæstv. utanrrh. um þróunina í Evrópu, að Evrópusambandið hefur gengið gegnum tvö þróunarskeið sem eru í grundvallaratriðum ólík enda réðu ráðum aðrir menn með ólíka lífssýn á málefnum Evrópu á sjötta og sjöunda áratugnum en síðar varð. Það er að ýmsu leyti gagnlegt að rifja þetta upp nú þegar hæstv. utanrrh. kýs að hvetja Íslendinga til aðildarumsóknar Íslands að ESB.
    Því er nú oft haldið fram að eftir hrun Sovétríkjanna hafi öryggismál fjarlægst hernaðarsviðið og nái nú í meiri mæli yfir viðskipti en áður. Þessi fullyrðing er að ýmsu leyti villandi. Eftir síðari heimsstyrjöldina var unnið að öryggismálum í Vestur-Evrópu eftir tveimur leiðum. Annars vegar beindist öryggissamstarfið að hernaðarógnun Sovétríkjanna og mótaðist á vegum NATO. Hinn þáttur öryggismálanna snerti innri mál Vestur-Evrópu og þá staðreynd að tvisvar á sömu öld höfðu Evrópuríkin háð stríð sem rekja mátti til átaka um auðlindir og áhrifasvæði þar sem kveikjuþráðurinn var ofinn úr landamæraþrætum og þjóðernisdeilum. Efnahagssamstarf Evrópuríkjanna, Kol- og stálbandalagið og síðan Efnahagsbandalag Evrópu, var tilraun til þess að beita efnahagssamstarfi til að tryggja frið, draga úr vægi landamæra, efla samskipti og viðskipti til að uppræta orsakir aldagamalla blóðsúthellinga í Evrópu. Efnahagssamstarfið var verkfæri en ekki hugsjón. Efnahagssamstarfið var ekki tilgangur heldur verkfæri. Tilgangurinn var að tryggja frið í Evrópu. Þeir sem stóðu fyrir þessari tilraun kunnu full og góð skil á sögu Evrópu. Þeir spunnu þessar hugsjónir sínar um frið í Vestur-Evrópu á djúpri þekkingu á þjóðmenningu Evrópuríkja og sögu Evrópuríkjanna. Þeir ætluðu ekki að búa til Bandaríki Evrópu. Þeir áttu ekki þá draumsýn, þessir menn. Fyrir suma þeirra hefði slík draumsýn sennilega verið til jafns við fullkominn misskilning, jafnvel martröð. Auðvitað snerti þessi tilraun til að skapa öryggi í Evrópu með efnahagssamvinnunni ekki Austur-Evrópu, ekki vegna þess að Austur-Evrópa ætti ekki við sömu vandamál að etja og Vestur-Evrópa. Landamæradeilur og þjóðernisátök hafa alla tíð verið hefðbundin vandamál Mið- og Austur-Evrópu. En þeirra vandamála gætti ekki undir járnhæl sósíalismans sem hélt öllum sögulegum vandamálum í sífrera lögregluríkisins sem nú er hrunið. Verkfærið, efnahagssamvinnan innan Evrópuríkjanna, hefur tekist vel. Verkfærið hefur verið nothæft. Þó að auðvitað hafi verið ýmis vandamál innan Evrópusambandsins á Írlandi og á Spáni, svo að nokkur dæmi séu tekin, þá hefur þetta verkfæri verið nothæft. Efnahagsbandalagið á sínum tíma var verkfæri sem nýttist til þess að auka öryggi og frið í Evrópu. Bandalagið sem nú heitir Evrópusambandið varð grundvöllur aukins öryggis og renndi traustum stoðum undir friðsamlega sambúð Evrópuríkjanna.
    Á áttunda áratugnum varð hins vegar djúpstæð breyting á samstarfi Evrópuríkjanna og þá komum við að seinni þættinum í þróun Evrópusambandsins sem hófst á áttunda áratugnum. Olíukreppan setti efnahagssamvinnu bandalagsríkjanna í hættu. Verndarsjónarmiðum óx þá fiskur um hrygg og veik staða Evrópuríkjanna í orkumálum opinberaðist og kastaði skugga á pólitískt sjálfstæði margra bandalagsríkja Efnahagsbandalags Evrópu, sem þá hét svo. Það voru komnir nýir menn sem héldu um stjórnvölinn á þessum tíma. Gegn þessum doða, sem lagðist yfir efnahagssamvinnu Evrópuríkjanna á þessum tíma, risu menn í krafti nýrrar hugsjónar. Evrópubandalagið breytti um eðli á þessum tíma. Leiðtogar Evrópuríkjanna sannfærðu sjálfa sig um það að Evrópubyggingin yrði að efla samrunaþróun sína ellegar liðaðist hún í sundur. Sterkar raddir heyrðust um hina svokölluðu sögulega nauðsyn á því að Evrópubandalagið staðnaði ekki heldur héldi áfram á þróunarbraut sinni, næði nýjum áföngum í samruna, rynni í raun saman í eina heild.
    Þessi hugmyndafræði var brynjuð í bak og fyrir af klisjum sem maður heyrir svo í dag raunar í ræðum hæstv. ráðherra og reyndar líka í skýrslum Háskóla Íslands. Þessi hugmyndafræði bar einkennilegan keim af örlagahyggju sem kom sterkt fram í blaðaskrifum í Evrópu þegar Maastricht-samkomulagið var til umfjöllunar. Þar fjölluðu menn í hverri greininni á fætur annarri í Belgíu, í Frakklandi og í Þýskalandi um sögulega nauðsyn þess að bandalagið styrkti sig, að samrunaþróunin yrði alltaf að styrkjast því að ellegar hryndi allt. Allt öryggiskerfi Evrópu átti að hrynja ef þetta gengi ekki eftir. Þessi örlagahyggja er mjög

sérkennileg og ekki hægt annað en vekja athygli á því að margir talsmenn þessarar örlagahyggju og pólitísks samruna Evrópuríkjanna voru sósíalistar eða sósíaldemókratar sem fundu þarna farveg fyrir alþjóðahyggju sína.
    Ég á fáar sekúndur eftir af máli mínu. Ég taldi nauðsynlegt að koma fram með þá ábendingu að ég tel að að svo miklu leyti sem hæstv. utanrrh. hefur opinberað þingheimi hugmyndir sínar um að við eigum að sækja um aðild að Evrópubandalaginu þá sé rökstuðningurinn að baki því yfirborðskenndur og veikur og ekki skynsamlegt fyrir okkur að taka á þessu máli með þeim hætti sem hann hefur gert. Við þurfum miklu breiðari umfjöllun um þetta. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að málið snýst um stöðu okkar sem sjálfstæðs þjóðfélags í heiminum, um aðstöðu okkar til að hafa áhrif innan Evrópusambandsins en einnig utan þess. Ég vil því leggja áherslu á að við umræðu um þetta mál eigum við að sækja rök í söguna, við eigum að sækja rök í efnahagsþróun Evrópu frá því eftir stríðið og við eigum að forðast að líta á þessi mál frá sjónarmiði örlagahyggjunnar sem mjög einkennir alla þá sem tala máli inngöngu okkar í Evrópusambandið.