Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:02:54 (846)

[15:02]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að málflutningur eins og sá sem við hlýddum á nú sé vísasti vegurinn til þess að tefja fyrir því að við getum hafið hvalveiðar að nýju. Ef Alþjóðahvalveiðiráðið er kölluð úrelt stofnun, þá er NAMMCO gersamlega gagnslaus stofnun því að þannig er mál með vexti að við þurfum að tryggja okkar þjóðréttarlegu stöðu í þessu máli til þess að við getum hafið hvalveiðar. Og NAMMCO mun ekki duga okkur og dugar okkur ekki þannig að þeir menn sem leggjast gegn því að við förum inn í Alþjóðahvalveiðiráðið með fyrirvara sem við ákveðum sjálfir, hvalveiðiráðið ákveður hann ekki fyrir okkur og ekki aðildarríki þess heldur við sjálf, þá tryggjum við það að við getum hafið hvalveiðar fyrr en ella. Og það er alrangt að halda því fram að við sem erum talsmenn þess að við förum þessa leið séum að drepa þessu máli á dreif. Þvert á móti hefur því verið drepið á dreif með þessu tali um NAMMCO og að NAMMCO geti hugsanlega orðið þessi alþjóðastofnun sem krafist er samkvæmt hafréttarsáttmálanum. Ég bið því hv. þm. að kynna sér málið betur, átta sig á stöðunni og því að ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið. Með þessum skilmálum felst engin viðurkenning á Alþjóðahvalveiðiráðinu. Það felst viðurkenning hins vegar á því sjónarmiði að við þurfum að tryggja okkar þjóðréttarlegu stöðu og það gerum við ekki með aðild að NAMMCO.