Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:04:15 (847)

[15:04]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst eins og það komi fram sá misskilningur í máli hv. 3. þm. Reykv. að með því að ganga inn í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju þá séum við að opna einhverjar leiðir til þess að geta hafið hvalveiðar aftur. Mér finnst ekkert --- ekkert í sögu þessarar stofnunar benda til þess að við getum átt von á því að við náum þessum árangri. Það væri vissulega ánægjulegt ef við gætum sagt sem svo að með því að vinna að máli okkar með vísindalegum rökum og málefnalegum rökum, gætum við hugsanlega náð árangri á þessu sviði. En sannleikurinn er bara sá að innan Alþjóðahvalveiðiráðsins hefur aldrei verið hlustað á rök þjóða eins og okkar sem vilja hefja skynsamlegar hvalveiðar á grundvelli vísindalegra rannsókna.
    Ég er algerlega ósammála því sem hv. þm. sagði hér um stöðu NAMMCO og ég vitna sérstaklega til efnisatriða í skýrslu þeirri sem ég margoft vék að hér í máli mínu áðan, þar sem það er þvert á móti rökstutt að NAMMCO geti haft þessa þjóðréttarlegu stöðu. Ég vitna, með leyfi hæstv. forseta, orðrétt í þessa skýrslu:
    ,,Hér á landi hafa verið uppi vangaveltur um það hvort NAMMCO geti talist viðeigandi alþjóðastofnun sem samstarfsgrundvöllur um hvalamálefni svo sem krafist er í þessari grein [þ.e. 65. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna].
    Í þjóðarétti er alþjóðastofnun skilgreind sem stofnun sem með samningi er komið á fót á milli tveggja eða fleiri ríkja. Í hafréttarsamningnum er orðið alþjóðastofnun notað hvort sem um er að ræða undirsvæði, svæðis- eða heimsstofnanir. Notkun þessa orðs er samsvarandi í texta framkvæmdaáætlunar umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna frá síðasta ári. Að uppbyggingu á NAMMCO sér fyrirmynd í Norður-Atlantshafslaxverndunarstofnuninni (NASCO) sem er svæðisbundin alþjóðastofnun. Lögfræðilega virðist því útilokað annað en að NAMMCO sé alþjóðastofnun í skilningi þjóðaréttar og ólíklegt að um málið verði deilt á þessum grunni á alþjóðlegum vettvangi.``