Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:06:34 (848)

[15:06]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi: NAMMCO geta menn skilgreint með þessum hætti, en NAMMCO þarf að njóta viðurkenningar annarra til þess að verða talin alþjóðastofnun. Í öðru lagi, sem er enn þá mikilvægara, NAMMCO þarf að taka ákvörðun um það að fjalla um hrefnur og þá hvali sem við höfum áhuga á að veiða. Svo er ekki. Í þriðja lagi vil ég láta þess getið, ef það hefur farið fram hjá hv. þm., að aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins stunda hvalveiðar eins og Norðmenn og það gerir enginn athugasemd við það og það er viðurkennt að þeir stunda hvalveiðar og gera það án þess að það skaði stöðu þeirra innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Við höfum sama rétt og Norðmenn, við höfum sömu vísindalegu forsendurnar til að hefja hvalveiðar. Það sem okkur vantar er hin þjóðréttarlega staða og við öðlumst hana ekki nema við förum inn í Alþjóðahvalveiðiráðið með þeim fyrirvörum að við ætlum að hefja veiðar á ákveðnum tegundum hvala í samræmi við vísindaleg rök.