Staða félagsmálaráðherra

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:29:39 (852)


[15:29]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs til þess að spyrja hæstv. forsrh. um stöðu félmrh. innan ríkisstjórnarinnar með sérstöku tilliti til ummæla hæstv. félmrh. í fyrrakvöld í garð bæjaryfirvalda í Hafnarfirði þar sem fram kom skýr hótun af hálfu hæstv. félmrh. að meðferð Hafnarfjarðarbæjar á málefnum listahátíðar kynni að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir samskipti félmrn. við Hafnarfjarðarbæ hvað snertir reynslusveitarfélag, grunnskóla, húsaleigubætur og annað.
    Í haust hefur þjóðin fylgst með því hvernig hvert málið á fætur öðru sem tengst hefur ráðherraferli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar hefur vakið undrun þjóðarinnar og svo fór að lokum að flokkur ráðherrans tók þá ákvörðun að vísa embættisgerðum hans sem heilbrrh. til sérstakrar rannsóknar hjá Ríkisendurskoðun. Það er mat margra að mörg þau mál sem snertu embættisferil Guðmundar Árna Stefánssonar sem hæstv. heilbrrh. hefðu ein og sér dugað til þess að ráðherrann áttaði sig á því að hann hefði ekki lengur þá tiltrú og það traust sem þyrfti til þess að geta gengt störfum sínum. Ráðherrann tók hins vegar upp annað embætti og gerðist félmrh. Vandinn er hins vegar sá að á þeim skamma tíma sem Guðmundur Árni Stefánsson hefur setið í embætti félmrh. hefur hann hagað orðum sínum og gerðum á þann veg að engan veginn er við hæfi sem yfirmaður sveitarstjórnarmála í landinu. Það er mikilvægt að árétta það hér að félmrh. er í senn æðsta yfirvald og áfrýjunaraðili varðandi málefni sveitarfélaganna í landinu. Það var þess vegna ekki við hæfi að hæstv. félmrh. mætti á blaðamannafund fyrir nokkrum vikum síðan þar sem fjallað var um fjármál Hafnarfjarðar, tók þar afstöðu í því máli, lét falla ummæli um löggilta endurskoðendur sem á engan hátt eru við hæfi frá félmrh., yfirmanni sveitarstjórnarmála.
    Málefni listahátíðar í Hafnarfirði bætast svo enn við þennan þátt mála þar sem bæjaryfirvöld í Hafnarfirði standa nú frammi fyrir þeim vanda hvort þau eiga að áfrýja málinu til félmrn. og óska eftir sérstakri athugun þess eða taka það alvarlega skref að vísa málinu til Rannsóknarlögreglu ríkisins. Það kann að vera að yfirvöld í Hafnarfirði neyðist til þess að vísa málinu til Rannsóknarlögreglu ríkisins vegna þess að í félmrn. situr einn helsti málsaðili málsins, Guðmundur Árni Stefánsson.
    Í fyrrakvöld bættist svo enn nýr kafli í þessa sögu, sá kafli sem að mínum dómi er svo alvarlegur að hann er tilefni þess að ég hef ákveðið að óska eftir svörum frá hæstv. forsrh. Í viðtalsþætti í Ríkissjónvarpinu á fimmtudagskvöld sagði Guðmundur Árni Stefánsson, hæstv. félmrh., við bæjarstjórann í Hafnarfirði:
    ,, . . .   en hins vegar vildi ég nú gjarnan eiga við þig orðastað um þau mál því að ég hef orðið satt að segja dálitlar áhyggjur af því í mínum heimabæ, og tala þá fyrir sjálfan mig, að menn eru þar sennilega að því er virðist að vera að festast í fari. Og ég vil nú vara þig við sem reynslumikill í þínu starfi að þú farir nú að horfa fram fyrir þig því að við þurfum að ræða ýmis mál, og þá tala ég sem félmrh., um reynslusveitarfélögin, um tilflutning grunnskólans, um húsaleigubætur og nú fer að koma 1. nóvember þegar Hafnfirðingar þurfa að taka um það ákvörðun hvort leigjendur í Hafnarfirði ef það eigi að fá sínar bætur.``
    Vissulega mætti málfarið á þessum ummælum hæstv. ráðherra vera betra. En hitt er þó alveg ljóst að í þessum viðræðum kýs hæstv. félmrh. að beita þeirri hótun til bæjarstjórans í Hafnarfirði að hann varar hann við að ef mál haldi áfram að þróast með þessum hætti sem tengst hefur umræðunni um listahátíð í Hafnarfirði sem er tilefni viðtalsins þá kunni það að hafa alvarleg áhrif á samskipti félmrn. við Hafnarfjarðarbæ varðandi ákvarðanir um sess Hafnarfjarðar sem reynslusveitarfélags, um málefni grunnskólans, um húsaleigubætur og annað.
    Það er alveg ljóst að þegar hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson fer að hóta embættisvaldi sínu sem félmrh., æðsta yfirvald sveitarstjórnarmála í landinu, yfirvald og áfrýjunaraðili í þeim málaflokki þá hefur bæst alveg nýr kafli í þessa sögu. Þá er þetta ekki lengur orðin spurning um mat á siðferði eða spillingu heldur orðin grundvallarspurning um meðferð opinbers valds. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh.:
    1. Hvert er álit hæstv. forsrh. á þeirri hótun sem felst í ummælum hæstv. félmrh. í garð Hafnarfjarðar sem fram kom í fyrrgreindri tilvitnun?
    2. Telur hæstv. forsrh. að í ljósi þessara ummæla, sem eru ný viðbót við því miður sorglega sögu, geti hæstv. félmrh. Guðmundur Árni Stefánsson lengur gengt embætti sem æðsta yfirvald sveitarstjórnarmála á Íslandi?