Staða félagsmálaráðherra

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:53:33 (862)



[15:53]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þessi stutta umræða hefur leitt eitt í ljós. Það er það að hæstv. forsrh. tekur ábyrgð á hæstv. félmrh. Það er mergurinn málsins og þá vitum við það.
    Hæstv. félmrh. kom hér í ræðustól með málsvörn sína og þrátt fyrir það sem hann sagði í umræddum sjónvarpsþætti þar sem hann tók það sérstaklega fram að hann talaði sem félmrh., það bæri ekki að skilja sem hótun. Og hann vildi meina að þeir sem horfðu á gætu ekki hafa skilið það sem hótun.
    Nú er hæstv. félmrh. einstaklega fallegur maður og saklaus á svipinn. Það er náttúrlega ótrúlegt að svoleiðis menn séu með grófar hótanir og það kann að vera að einhverjir hafi ekki skilið hótunina. Ég gat ekki tekið þetta öðruvísi en sem hótun þegar ég horfði á. Hann hefur hins vegar formlega tekið hótun sína aftur og fyrir það vil ég þakka honum sérstaklega. Það er það góða við hæstv. félmrh. að iðulega þegar hann má vera að þá tekur hann aftur það sem hann hefur verið að segja eða gera. Hann gæti bara haft á dyrunum hjá sér á kontór sínum í ráðuneytinu: Það er ekkert að marka mig, eða eitthvað svoleiðis.
    En það er fleira í þessum þætti sem mig langar til þess að inna eftir. Síðar í þættinum spyr hann að því hvort menn séu ekki með höfuð um öxl. Mig langar til að vita hvernig þeir menn eru sem eru með höfuð um öxl.