Staða félagsmálaráðherra

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 15:55:32 (863)

[15:55]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann flutti hér. Það er auðvitað mikilvægt að hæstv. forsrh. segi það alveg skýrt að hann telji ummæli hæstv. félmrh. mjög óheppileg og hann hafi talið nauðsynlegt að ræða þau alveg sérstaklega við hæstv. félmrh. Það er líka mikilvægt að hæstv. forsrh. skuli lýsa því yfir að ef Hafnarfjarðarbær snýr sér til félmrn. með kæru vegna listahátíðar í Hafnarfirði, þá muni hæstv. forsrh. skipa nýjan mann sem félmrh. meðan um kæruna er fjallað í ráðuneytinu. Vandinn er hins vegar sá, hæstv. forsrh., að það eru mörg önnur málefni Hafnarfjarðar sem fjallað er um í félmrn. Það er umsókn Hafnarfjarðar um að vera reynslusveitarfélag, það eru húsaleigubætur, það eru málefni grunnskólans og margt annað. Það er varla hægt að ætlast til þess að ráðherra sem er orðinn hluti af kæru bæjarins til ráðuneytisins og hefur verið settur af um sinn vegna þess máls, geti með eðlilegum hætti haldið áfram að fjalla um önnur málefni Hafnarfjarðar í ráðuneytinu né að yfirvöld í Hafnarfirði geti treyst honum til þess.
    Orðin hafa verið sögð. Hæstv. félmrh. notaði orðalagið ,,ég vara við``. Það bætist við framgöngu hans á blaðamannafundi þar sem hann mætti þar sem var verið að fjalla um málefni Hafnarfjarðar. Það bætist við yfirlýsingu hans sem félmrh. að löggiltir endurskoðendur hafi framkvæmt pólitískt pantað verk. Þegar allt þetta bætist við þá rannsókn Ríkisendurskoðunar sem er eingöngu bundin við feril þingmannsins Guðmundar Árna Stefánssonar sem heilbrrh., þá er orðið ljóst, virðulegi forseti, og mér þykir dapurlegt að þurfa að segja það, að þetta mál er komið á þá endastöð að annaðhvort --- og ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, verður hæstv. félmrh. á næstu dögum að sjá sóma sinn í því að biðjast sjálfur lausnar eða hæstv. forsrh. verður að taka þá ákvörðun fyrir hann. Ég tel rétt að gefa þeim tveimur nokkra daga til þess að velta því máli fyrir sér. En gerist hvorugt þá vil ég lýsa því yfir hér að ég mun beita mér fyrir umræðum milli þingmanna um flutning sérstakrar vantrauststillögu á hæstv. félmrh.