Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 16:59:43 (879)

[16:59]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það liggur ljóst fyrir að hv. þm. Páll Pétursson lítur svo á að með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafi stjórnarskráin verið brotin og hann ætlar að lifa við það. Hann ætlar ekki að hreyfa andmælum við því og ekki berjast fyrir því að því máli verði breytt. Hann sagði að við gætum ekkert gert í málinu nú. Við gætum ekki sagt upp samningnum við EES því að þjóðfélagið hefði aðlagað sig að aðstæðum hvað sem stjórnarskránni liði. Hv. þm., þjóðfélagið er ekki kosið á þing, ekki heldur Björn Þ. Guðmundsson prófessor. Það er hv. þm. sjálfur sem er kosinn á þing og undirritar drengskaparheit sitt og verður þá að sætta sig við það að þrátt fyrir að hann hafi undirritað þetta heit þá ætlar hann að lifa við það að stjórnarskráin hafi verið brotin að hans mati. Auðvitað mun þjóðin fella þann dóm hverjir eiga að stýra landinu í framtíðinni. Það getur vel verið að þingmaðurinn komist í meirihlutaðstöðu ásamt þeim sem litu svo á að stjórnarskráin hefði verið brotin. En hann hefur lýst því yfir að hann ætli ekki hreyfa því máli.