Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

20. fundur
Fimmtudaginn 27. október 1994, kl. 17:20:59 (887)

[17:20]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. vék að mannréttindabrotum og viðskiptasamningum. Það er tilefni til þess að það komi fram að íslensk stjórnvöld eru andvíg mannréttindabrotum hvar sem þau birtast í hvaða landi sem er. Við höfum hins vegar ekki verið þeirrar skoðunar að rétt viðbrögð við slíkum mannréttindabrotum eða öðrum pólitískum ágreiningsmálum væru viðskiptaþvinganir eða viðskiptanbönn. Íslensk stjórnvöld hafa andmælt mannréttindabrotum í Tyrklandi. Seinast var það gert á fundi utanrrh. Norðurlanda, sameiginlega fyrir hönd Norðurlandanna.
    Að því er varðar tillögu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á allsherjarþingi um það hvort menn lýsi sig með eða móti eða skori á bandarísk stjórnvöld um að aflétta viðskiptabanni á Kúbu þá greindi ég frá rökum okkar hér áðan. Við höfum setið hjá með þeim rökum að þetta þjónaði engum tilgangi, þ.e. það breytir engu um það hvort þetta viðskiptabann er eða hvort því verður aflétt en það verður notað sem pólitísk stuðningsyfirlýsing við mannréttindabrot á Kúbu. Þess vegna breyttum við ekki afstöðu okkar. Norðurlöndin breyttu fyrst afstöðu sinni þegar þau voru komin inn í EB-hópinn vegna viðskiptahagsmuna Evrópusambandsins.