Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:26:53 (898)


[15:26]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að taka þetta mikilvæga mál hér upp á dagskrá. Þó málefni landbúnaðarins séu oft á dagskrá Alþingis þá eru málefni garðyrkjubænda það sjaldan.
    Fyrir ári síðan kölluðu garðyrkjubændur þingmenn Vesturlands og Suðurlands á sinn fund og bentu þeim á níu punkta sem þyrfti að bæta úr til að þeir gætu haldið áfram að reka sinn búskap. Það eru 350 heilsársstörf í garðyrkju á Íslandi, 200 sumarstörf og ef margfeldisáhrifin eru tekin með þá erum við að tala um á annað þúsund störf. Þannig að þetta er mjög mikilvæg atvinnugrein.
    Það er sem sagt tæpt ár síðan garðyrkjubændur komu á okkar fund og hæstv. landbrh. fékk þessar ábendingar frá okkur þingmönnunum og hann fór hér yfir það núna hvað hefði gerst á þessu ári. Hvað hefur gerst? Að svo miklu leyti sem ég gat numið rödd hæstv. landbrh. er það afskaplega lítið og fer ég yfir það eftir því sem tíminn gefur tilefni til.
    Lækkun sjóðagjalda. Þar hefur ekkert gerst. Afnám tolla á rekstrar- og fjárfestingarvörum til garðyrkju. Jú, þar hefur nokkuð gerst, en þar er líka til að svara að fjárfestingar í garðyrkju eru nánast engar um þessar mundir. Endurgreiðsla söluskatts og tolla. Þar hefur ekkert gerst. Lækkun raforkuverðs. Málið er til umfjöllunar og hefur afskaplega lengi verið til umfjöllunar og verður trúlega mjög lengi áfram. Það sem hæstv. iðnrh. sagði áðan var ekki neitt sérstaklega jákvætt fyrir garðyrkjubændur. Eftirlit með innflutningi. Jú, það hefur nokkuð gerst í því. Það er meira eftirlit með innfluttum matvælum en verið hefur. Samt sem áður kemur manni það afskaplega óvart að einn innfluttur tómatur getur staðið óskemmdur á borðinu hjá manni í allt að tvær vikur. Það hlýtur að vera mikið í rotvarnarefni í slíkum matvælum. Þannig að eitthvað skortir á. (Forseti hringir.)

    Virðulegi forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Og það sýnir best hvað tíminn er skammur og hvað sjaldan er rætt um þessi málefni hér, að ég er ekki hálfnuð að fara yfir þá punkta sem nauðsynlegt væri að fara yfir.