Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:29:36 (899)


[15:29]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Erfiðleikar þeirrar greinar sem hér er til umræðu hafa lengi staðið. Þegar búvörulögum var breytt 1985 og gamla Grænmetið lagt niður átti að búa til reglugerð til að vinna eftir fyrir þessar greinar. Hún kom aldrei. Þarna hefði þurft að ná samkomulagi ríkisvalds og greinanna áður en frelsið fór á fulla ferð. Stjórnvöld skulda þessum greinum fyrirgreiðslu. Þær voru skildar eftir árið 1985. Stjórnvöld verða að koma til móts við framleiðendur. Það verður að finna lagaramma sem allir verða sáttir við. Það þarf að tryggja lágmarksverð þar sem séð er fyrir að framleiðslukostnaður sé greiddur. Það þurfa líka að vera reglur hvernig taka þarf á í offramleiðsluárum. Gera þarf sér grein fyrir því að neytandinn græðir ekki nema til skamms tíma ef framleiðendur eru settir á hausinn og greinarnar leggjast af. Það er stundum hægt að fá ódýran innflutning. En hvernig verður staðan þegar hætt er að framleiða í landinu ef þessar greinar hrynja? Ef þær fá ekki þann stuðning í dag sem þeim ríður á þá verður ekki ódýr innflutningur sem blasir við.
    Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því að það má heita tíska í umræðum nú á dögum að hafna svonefndri miðstýringu en boða lögmál framboðs og eftirspurnar. Sannleikurinn er hins vegar sá að þetta tvennt er háð hvort öðru. Markaðsfrelsið snýst upp í andhverfu sína nema jafnvægisbúskapur sé tryggður með samræmdum ráðstöfunum. Án miðstýringar breytast markaðslögmálin í lögmál frumskógarins. Þetta sjáum við því miður í því skipulagsleysi sem þessar greinar búa við sem hér eru til umræðu.
    Ofan á þau vandræði sem hér hafa verið rakin og hafa komið fram í umræðunni hafa komið til athafnir varðandi innflutningsmál, varðandi samninga okkar við erlend ríki, varðandi EES. Þar hefur hæstv. utanrrh. haldið um taumana.
    Ég vil leyfa mér að vitna til greinar er ég birti í Morgunblaðinu í gær þessu til stuðnings:
    ,,Í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið var landbúnaðinum fórnað. Fyrst var byrjað á garðyrkjunni. Samið var um árstíðabundinn tollfrjálsan innflutning á mikilvægustu afurðum íslenskra garðyrkjubænda með þeim afleiðingum að ekki verður unnt að auka innlenda framleiðslu með því að lengja framleiðslutímann með lýsingu og einnig skerðast afkomumöguleikar garðyrkjubænda verulega frá því sem áður var. (Forseti hringir.) Þetta var gert af því að sagt var til að laða fram betri samningsvilja Suður-Evrópubúa, einkum Spánar um fisk, og því ekki lítið lagt á garðyrkjubændur landsins að bera (Forseti hringir.) upp þjóðarhagsmuni á þennan hátt.`` --- Ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti. ,,Í reynd rættist gamall draumur ráðherrans um að sjá íslenskan landbúnað standa varnarlausan gagnvart innflutningi á niðurgreiddri erlendri landbúnaðarafurð.``
    Alþingi og ríkisstjórn þarf vissulega að hafa hraðann á að taka á þeim vanda sem hér er ræddur.