Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:35:32 (902)


[15:35]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Ég þakka þessa sjálfsögðu umræðu um málefni garðyrkjubænda en ég minnist þess þó ekki að málshefjandi hafi haft sérstakt frumkvæði í landbn. að þeirra málefnum en e.t.v. fylgir það núverandi forustuhlutverki hv. þm. að stíga á stokk með utandagskrárumræðu.
    Vanda kartöfluræktar má að hluta rekja til búvörusamningsins. Margir bændur búa á jörðum sem ekki hafa framleiðslurétt. Í vaxandi samkeppni hallar stöðugt á þá sem ekki hafa samningstryggðar tekjur, eins og t.d. kúabændur sem margir eru orðnir stórtækir í kartöflurækt.
    Það er athyglisvert að nú í haust hafa fyrirtæki framleiðenda, Ágæti hf. og Sölufélag garðyrkjumanna, leitt slaginn í undirboðum á kostnað innleggjenda. Þeir sem hafa mótað stefnuna í landbúnaði verða að svara því hvort ætlunin sé að horfa fram hjá því óþolandi óréttlæti sem hefur viðgengist gagnvart bændum sem ekki njóta ríkisforsjár. Var það kannski liður í hagræðingu í landbúnaði að velja úr til ásetnings og láta hina falla bótalaust?
    Helstu vandamál sem neytendur standa frammi fyrir eru þau hversu hróplega stór munur er á verði til fólks á landsbyggð og í Reykjavík. T.d. má nefna það þegar tómatar kostuðu 70 kr. í Reykjavík þá kostuðu þeir 300 kr. á Vesturlandi og e.t.v. enn meira á Austurlandi.
    Hvað með kartöflurnar? 4 kr. í Reykjavík en 40 kr. á Vesturlandi. Það er þetta sem verður að laga annars fara neytendur í stræk.
    Á sama tíma og krafist er verndar fyrir garðyrkjubændur þá er rétt að geta um hvernig menn haga sér í tengslum við annan innflutning. Það er verið að byggja risaþekju á Hvanneyri. Svona er að því staðið. Límtré í hundruðum metra er allt innflutt frá Danmörku, ekki keypt frá Flúðum, ekki íslenskt. Nei, takk. Gluggar með gleri í tugum talið. Allt flutt inn frá Danmörku. Ekki íslenskt. Nei, takk. Er þetta sá verslunarmáti sem menn vilja og það á Hvanneyri, (Forseti hringir.) höfuðbóli íslensks landbúnaðar?
    Það er ekki nóg að standa með ,,íslenskt, já, takk`` í barminum þó til bóta sé. Það væri gaman að vita hversu margir hér geta sagt: Mitt merki er íslenskt og það skapar atvinnu. Já, takk.