Staða garðyrkju- og kartöflubænda

21. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 15:37:52 (903)


[15:37]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Þrátt fyrir góð áform þá er alveg ljóst að vandi garðyrkjubænda verður ekki leystur í þessari utandagskrárumræðu að þessu sinni frekar en oft áður en vissulega hefur komið fram góður vilji til þess hjá mörgum hv. þm. Garðyrkjubændur hafa gert mjög glögga grein fyrir sínum vandamálum. Þeir hafa m.a. á fundum með þingmönnum Vesturlands farið yfir helstu mál og við höfum komið þeim rækilega á framfæri við ríkisstjórnina. Ég vænti þess og ekki síst í framhaldi af svörum hæstv. ráðherra að á málefnum garðyrkjubænda verði tekið. Þeir hafa á mjög málefnalegan hátt rakið stöðu greinarinnar og ég tel það í þágu íslenskra neytenda að íslensk garðrykja verði styrkt í landinu.
    Auðvitað eru þar mörg ljón á vegi en það verður að gera allt sem hægt er innan okkar heimilda og innan okkar möguleika til þess að styrkja þessa grein svo hún megi standa í landinu.