Hvalveiðar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:06:17 (915)


[16:06]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil fagna þeim upplýsingum sem fram komu í máli hæstv. sjútvrh. og tel að Alþingi eigi að taka afstöðu til hvalveiða á þessu þingi. Það hefur ekki gerst síðan í febrúar 1983 þegar samþykkt var illu heilli með eins atkvæðis mun að mótmæla ekki hvalveiðibanni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ég hef á tveimur síðustu þingum, ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, flutt þáltill. um að hefja hvalveiðar á grundvelli rannsókna Hafrannsóknastofnunar á stærðum og veiðiþoli hvalastofna. Það bárust sextán umsagnir um þessa tillögu til sjútvn. Alþingis og þær voru mjög jákvæðar, jafnt frá sjómönnum, útvegsmönnum og sölusamtökum, auk þess sem ASÍ samþykkti ályktun þar sem hvatt var til hvalveiða. Víðtæk skoðanakönnun DV leiddi einnig í ljós yfirburðastuðning við hvalveiðar. Það er því ljóst að það er almennur vilji þjóðarinnar að hvalveiðar verði hafnar að nýju og að við nýtum þessa auðlind á skynsamlegan hátt.
    Ég vil að lokum leggja áherslu á það að markmið okkar hlýtur að vera að nýta alla þá hvalastofna sem þola veiðar samkvæmt vísindalegum athugunum, bæði með tilliti til verðmæta og atvinnusköpunar og ekki síður til að koma í veg fyrir röskun á lífríki hafsins.