Hvalveiðar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:09:19 (917)


[16:09]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með það að það skuli standa til að samþykkja eða leggja fram þáltill. um að hefja hér hrefnuveiðar. En ég lýsi jafnframt yfir áhyggjum mínum með það að það muni eins fara í vetur eins og undanfarna vetur að það verði ekkert af aðgerðum, því það hafa áður verið lagðar fram ályktanir og þær hafa ekki endað með samþykktum.
    Ég held að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af þessu, bæði vegna þess að málið er ekki komið fram enn þá og vegna þess með hvaða hætti það hefur verið rætt hér á göngum þingsins og annars staðar þegar það hefur verið til umræðu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt til þess að við vinnum einhvern áfangasigur í þessum hvalveiðimálum okkar að hefja hrefnuveiðarnar. Ég tel ekki skynsamlegt að fara að veiða alla hvalastofna núna, einfaldlega vegna þess að ef það ætti að standa til finnst mér líklegra að það verði ekkert af aðgerðum á þessum vetri.