Hvalveiðar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:16:34 (922)


[16:16]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Vegna ummæla hv. 14. þm. Reykv. vil ég taka þetta fram: Ísland hefur í öllum atriðum við meðferð þessa máls staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt hafréttarsáttmálanum. Það var óhjákvæmilegt fyrir okkur að segja okkur úr Alþjóðahvalveiðiráðinu vegna þess að meiri hluti þess hafði með samþykktum sínum brotið gegn stofnsáttmála hvalveiðiráðsins.
    Ef við ætluðum okkur að taka upp hvalveiðar á ný var þetta óhjákvæmilegt. Ég minni á að Norðmenn sem hófu hvalveiðar innan hvalveiðiráðsins á nýjan leik höfðu mótmælt samþykkt um algjört hvalveiðibann og voru því óbundnir af þeirri samþykkt. Samtök okkar Norðmanna, Grænlendinga og Færeyinga fullnægja að lögum, alþjóðarétti, því samráði sem kveðið er á um í hafréttarsáttmálanum. Hitt er annað mál að hér kemur auðvitað til álita fleira en þjóðarétturinn einn. Bandaríkin hafa mikið vald. Þau virða ekki þjóðréttarlegar skuldbindingar í þessu efni, hvorki gagnvart hvalveiðisáttmálanum né GATT-sáttmálanum og við verðum þess vegna að fara af mikilli varkárni og ræða við bandarísk stjórnvöld.
    Ég lýsti því yfir þegar við sögðum okkur úr hvalveiðiráðinu að það gæti vel komið til álita að ganga inn í það á nýjan leik ef forsendur breyttust en þær hafa ekki breyst enn sem komið er og ég tel að það veiki samningsstöðu okkar um það að breyta þessum forsendum ef við lýsum því fyrir fram að við ætlum okkur að fara þangað inn án þess að hafa fengið þau skilyrði fram og viðurkennd sem við þurfum að setja fyrir því. Þess vegna vara ég við málflutningi af því tagi.