Framkvæmd jafnréttisáætlunar

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:26:06 (926)


[16:26]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans og hv. 3. þm. Reykn. undirtektir og tillögur sem hann kom með til þess að bæta úr þessu því það sér það náttúrlega hver maður á svörum þeim sem

hæstv. ráðherra fékk frá embættinu að hér er satt að segja um lítinn árangur að ræða þrátt fyrir háleit markmið.
    Það sem mér þykir fyrst og fremst felast í svari hæstv. ráðherra er það að á fínlega hátt er vikist undan þeirri spurningu sem þarna er vegna þess að það er ljóst að mannaráðningar eiga sér stað eftir sem áður þrátt fyrir að ekki losni um stöður sem skipað er í. Það eru ekki notuð þau tækifæri sem bjóðast, því eitt af því sem gerir konur sem ráðnar væru þarna tímabundið vegna afleysinga hæfari í starfi væri það að hafa möguleika á að spreyta sig og afla sér ákveðinnar starfsreynslu. Það er líka ákveðið markmið í þessari jafnréttisáætlun að það er ekki bara verið að ráða konur til þess að ráða konur heldur vegna þess líka að þær hafa ákveðið fram að færa. Það kemur fram í allri umfjöllun um hvers vegna verið er að sækjast eftir starfskröftum kvenna og jafnvel að bjóða upp á t.d. hlutastörf eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi. Ég tók sérstaklega til þess að þarna hefur t.d. ein kona lagt á sig töluverða þekkingaröflun í ákveðnu mjög viðkvæmu máli og ég tel einfaldlega að rannsóknarlögreglan hafi ekki efni á því að hafna slíkum starfskröftum. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann deilir þeim skoðunum ekki með mér að það þurfi a.m.k. að líta til þessara röksemda einnig.