Dreifing pósts og skeyta á landsbyggðinni

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:34:36 (928)

[16:34]
     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um dreifingu pósts og skeyta á landsbyggðinni og spyr:
    1. Hvaða reglur gilda hjá Pósti og síma um póstdreifingu á landsbyggðinni?
    2. Hvaða reglur gilda hjá Pósti og síma um skeytasendingar á landsbyggðinni?
    3. Hver er mismunur á dreifingu pósts og skeyta í þéttbýli og dreifbýli?
    Grunnurinn að þessari fsp. er sá að þetta ríka þjónustufyrirtæki landsmanna mismunar mjög þegnum þjóðfélagsins í þjónustu sinni. Nú er það að sumu leyti af eðlilegum ástæðum en ég tel þó að við þær breyttu samgöngur sem orðnar eru í landinu þurfi að taka mörg atriði til endurskoðunar.
    Ég er sannfærður um að t.d. þurfi að ná því fram með póstdreifinguna að hægt verði sem víðast að keyra póstinn fimm daga í viku. Ég hygg að Póstur og sími mundi á móti fá auknar tekjur og ekki skaðast af þessari breytingu. Í Eyjafirðinum t.d. eða í byggðinni þar er þetta gert í samráði við sveitarfélögin. Ég held að mörg þéttbýlli svæði á landsbyggðinni þurfi að reyna að ná samkomulagi við Póst og síma um að þetta verði gert með þeim hætti.
    Eins er með skeytasendingar. Þar býr landsbyggðin við mismunun. Þó er það svo að skeytum er dreift daglega frá ýmsum stöðum eins og Reykjavík, Akureyri, Ísafirði, Siglufirði, Vestmannaeyjum og Höfn en á öðrum stöðum koma ekki út skeyti til vina og kunningja á laugardögum eða sunnudögum. Mér finnst þess vegna brýnt að hæstv. samgrh. íhugi það í samráði við Póst og síma að ná þarna fram breytingu.
    Það eru aðalatriðin í þessari fsp. að mér finnst að fólkið sem í sveitunum býr eða dreifbýlinu gerir á öllum sviðum orðið sambærilegar kröfur og fólkið í þéttbýlinu. Og jafnsterk stofnun og Póstur og sími er hlýtur að verða að laga sig að breyttum tíma og ná þeim árangri að sem flestir landsmenn sitji við sama borð.