Dreifing pósts og skeyta á landsbyggðinni

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:41:28 (930)


[16:41]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir hans fyrirspurn sem hann leggur fyrir samgrh. vegna þess að það er ekki eingöngu vont fyrir hina dreifðu byggð að fá jafndræmar skeytasendingar eða póst og hér hefur komið fram. Það er líka mjög vont fyrir okkur þéttbýlinga þegar við erum að senda ágætum kunningjum okkar og vinum í hinni dreifðu byggð skeyti og ætlum að gera það á laugardegi þá er það ekki hægt fyrr en á næsta mánudegi. Við mörg hver hér á þéttbýlissvæðinu áttum okkur þess vegna kannski ekki á því hvernig þessi regla Pósts og síma vítt og breitt um landið kemur sér oftar en ekki mjög illa. Það er svo kannski að menn eiga að hafa fyrirhyggju og hugsa um þessa hluti í vikunni áður, heillaskeyti eða annað því um líkt, en margir atburðir koma skyndilega upp á og er þá mjög af hinu verra að ekki skuli vera hægt að ná til Pósts og síma í hinni dreifðu byggð til þess að koma kveðjum, árnaðaróskum eða öðru þvílíku til viðtakanda.