Dreifing pósts og skeyta á landsbyggðinni

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:45:20 (932)


[16:45]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er óhjákvæmilegt að það komi fram að Póstur og sími hefur verið að bæta þjónustu sína um allt land og það hefur tekist að lækka verð bæði af samgöngum og eins síma þannig að allt annað er en áður. En auðvitað eru takmörk fyrir því miðað við það sem það kostar að senda póst út um land hversu góða þjónustu er hægt að veita. Póstþjónustan er rekin með tapi nú þegar og það liggur fyrir að mjög mikil samkeppni er að vakna og er þegar orðin á mestu þéttbýlisstöðunum sambandi við bréfaútburð og ýmsan annað útburð sem auðvitað dregur úr tekjum póstsins á þeim svæðum sem ódýrast er að veita þjónustuna. En það er reynt að gera hvort tveggja í senn, að hafa þjónustu viðunandi og stilla verðlagi í hóf.