Útflutningur á vikri

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:55:43 (936)


[16:55]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :

    Virðulegi forseti. Ég þakka Margréti Frímannsdóttur fyrir þær upplýsingar sem hún kom hér inn á og jafnframt þakka ég ráðherra fyrir hans greinargóðu svör. Mér þótti vænt um að heyra það að hann telur eins og aðrir að vikurnám eins og nú er ástundað sé óásættanlegt. Með tilliti til þess að þessar birgðir endast ekki um aldur og ævi og með tilliti til þess að nú er vöntun á þessu efni víða í Evrópu er sjálfsagt og eðlilegt að við leggjum enn meira fé í rannsóknir. Þær standa að vísu yfir en það er umhugsunarefni hvort ekki sé hægt að hraða þeim. Jafnframt hlýtur það að vera umhugsunarefni, hæstv. iðnrh., hvort ekki sé eðlilegt að leggja í sérstakan áhættusjóð þar sem hægt sé að styrkja beint eða óbeint þá aðila sem hafa unnið mjög gott og skilmerkilegt starf varðandi útflutning á vikri og eru búnir að eyða miklu fé og sumir hverjir jafnvel lagt allt þar undir. Það er því full ástæða til þess, hæstv. iðnrh., að hér verði búinn til áhættusjóður með það í huga að styðja við þennan iðnað og að vissu leyti aðrar útflutningsgreinar sem við þurfum að skoða enn betur til að koma í veg fyrir að við séum að flytja óunnið hráefni frá landinu sem að öðrum kosti gæti skapað hundruðum manna atvinnu.