Verslunarálagning matvæla

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 16:59:50 (938)

[16:59]
     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Í morgun var verið að setja af stað austur á Selfossi átakið ,,Íslenskt, já takk`` þar sem margir aðilar í þjóðfélaginu taka höndum saman til þess að leggja áherslu á gildi þess að Íslendingar velji íslenskar framleiðsluvörur. Stór hluti af þeirri innlendu framleiðslu eru matvæli. Að undanförnu hefur verið rætt um verðmismun á innlendum og innfluttum matvælum og settar fram fullyrðingar um að mikill sparnaður yrði af því að hætta innlendri framleiðslu. Sú umræða hefur á ýmsan hátt verið lítt trúverðug, t.d. virðist hollusta matvælanna ekkert hafa verið tekin með í reikninginn þó þeir sem þekkingu hafa á því sviði telji það mjög stórt atriði að sjálfsögðu. Benda má á að sérfræðingar fullyrða að draga megi mikið úr tíðni ýmissa alvarlegra sjúkdóma, svo sem krabbameins og hjartasjúkdóma, með réttri neyslu matvæla sem framleidd eru í ómenguðu umhverfi eins og hér á landi er. En þó ekkert sé hugsað um gæði vörunnar í þessum samanburði er ýmislegt fleira sem hefur áhrif. Stór hluti af verði neytandans er heildsölu- og smásölukostnaður. Hefur það vakið athygli að stundum hefur verið talið hægt að selja eitt kg af innfluttri vöru á litlu hærra verði en aðeins sölukostnaður er á þeirri innlendu. Einnig má benda á að þegar verslanir selja innlend blóm og grænmeti bera framleiðendur ábyrgð á sölunni þannig að þeim er skilað því sem ekki selst, en verslanir bera aftur á móti fulla ábyrgð á innfluttu vörunni. Þetta kom m.a. fram í máli hæstv. landbrh. austur á Selfossi í dag.
    Þegar hefja á átak til sölu innlendrar framleiðslu skiptir miklu máli að staða þeirrar framleiðslu sé á engan hátt lakari. Því hef ég borið fram fsp. til hæstv. viðskrh. á þskj. 113 sem hljóðar svo:
    ,,Er mismunur á meðaltalsálagningu í heildsölu og smásölu á milli innlendrar og innfluttrar matvöru?``