Verslunarálagning matvæla

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:02:39 (939)


[17:02]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, Samkeppnisstofnun og Þjóðhagsstofnun, hefur engin athugun verið gerð á meðaltalsverslunarálagningu í heildsölu og smásölu milli innlendrar og innfluttrar matvöru. Í þeim athugunum sem hins vegar hafa verið gerðar í einstökum greinum á undanförnum árum hafa ekki komið fram vísbendingar um að stefna verslunarinnar sé að mismuna í álagningu milli innlendrar og erlendrar vöru. Dæmi eru um háa og lága álagningu bæði á erlendar og innfluttar matvörur.
    Eins og kunnugt er ríkir mjög mikil samkeppni á matvörumarkaðnum. Þrátt fyrr stöðugt verðlag eru miklar hreyfingar á verði einstakra vörutegunda. Þess eru dæmi að í ýmsum tilvikum er smásöluverð lægra heldur en verð frá heildsala eða framleiðanda. Þetta sýnir að vara sem var með hárri álagningu í gær kann að vera seld með lágri eða engri álagningu í dag. Þetta gerir allan samanburð erfiðan. Til viðbótar er ástæða til að benda á að það eru í mörgum tilvikum fleiri sölustig vegna innfluttrar vöru en innlendrar. Þannig fer innflutta varan yfirleitt í gegnum heildsölu áður en hún fer til smásöluverslunar þar sem aftur á móti innlendir framleiðendur selja framleiðslu sína gjarnan beint til smásala. Þetta torveldar enn frekar raunhæfan samanburð á verslunarálagningu innfluttrar vöru annars vegar og innlendrar vöru hins vegar.
    Það er áratugur liðinn síðan verslunarálagning í heildsölu og smásölu var gefin frjáls á matvörur og þess vegna verður að afla þeirra upplýsinga sem fyrirspurnin beinist að sérstaklega. Þrátt fyrir þá annmarka sem ég lýsi þá hef ég ákveðið að óska eftir því við Samkeppnisstofnun að hún kanni, eftir því sem kostur er, hvort unnt sé að leita svara við þeirri fyrirspurn sem hér er til umfjöllunar, en það verður að sjálfsögðu ekki gert nema með talsvert mikilli vinnu því þessar upplýsingar liggja ekki fyrir eins og var hér á árum áður þegar fylgst var með verðlagningu vegna verðlagsákvæða á flestum vörum. Hins vegar bendi ég á, virðulegi forseti, að með afnámi verðlagsákvæða hefur samkeppni stóraukist í matvöruverslun og verðlag vegna áhrifa samkeppninnar er nú lægst þar sem samkeppnin er mest.