Sumarmissiri við Háskóla Íslands

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:25:15 (948)


[17:25]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hugmyndin að sumarmissiri við Háskóla Íslands var sett frá af stúdentaráði háskólans fyrr á þessu ári og þetta námsframboð er einkum hugsað fyrir stúdenta sem eru án atvinnu og vilja nýta tíma sinn til náms.
    Á fundi háskólaráðs Háskóla Íslands þann 4. ágúst sl. lögðu fulltrúar stúdenta fram tillögu um sumarnámskeið og gerði háskólaráð svofellda bókun:
    Formaður stúdentaráðs mælti enn fremur fyrir tillögu stúdenta um sumarnámskeið sem rekin verði til reynslu næsta sumar. Tillagan var lesin upp og rædd í ráðinu. Samþykkt var að Háskóli Íslands stefni að því að haldin verði sumarnámskeið við skólann næsta sumar í samræmi við framlagðar tillögur stúdenta. Kennslumálanefnd var falið að vinna að nánari útfærslu á námskeiðunum.
    Þann 10. ágúst sl. leitaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá rektor háskólans um fjárhagslegar forsendur fyrir ákvörðuninni og hvort um forgangsröðun þessa verkefnis væri að ræða af hálfu háskólaráðs með tilliti til fjárlagagerðar. Í svari rektors þann 17. ágúst sl. kemur fram að í þessari samþykkt felst engin breyting á forgangsröðun háskólaráðs á beiðnum um fjárveitingar í næstu fjárlögum. Enn fremur segir í svarinu að tilraunakennsla á sumarnámskeiðum yrði jákvæð nýbreytni sem drægi úr offramboði vinnuafls stúdenta að sumarlagi og gæti komið mörgum þeirra vel sem stytting heildarnámstíma. Tekið er fram að sumarnámskeið geti þó ekki átt forgang umfram þá kennslu sem er í boði á venjulegum kennslumissirum og að fjárhagslegar forsendur fyrir stefnuákvörðun háskólaráðs hafi verið þær að háskólinn gæti af núverandi fjárveitingu borið kostnað af húsnæði, ræstingu, skráningu og allri almennri umsýslu við tilraunina en nýtt fé yrði að koma til að greiða launakostnað vegna kennslu á sumarnámskeiðunum. Það fé yrðu stúdentar að tryggja, en það yrði ekki endilega sótt í fjárlagaramma menntmrn. heldur jafnvel í sérstakar fjárveitingar ríkis vegna atvinnuátaks eða til sveitarfélaga.
    Rektor tekur að lokum fram að umræða um þetta mál sé á algjöru frumstigi innan háskólans og að kennslumálanefnd háskólaráðs hafi verið falið að vinna að útfærslu þessarar tilraunar, ræða við deildir og leggja áætlun um umfang og kostnað fyrir ráðið.
    Hv. þm. spyr hvaða skoðun ég hafi á þeirri hugmynd stúdentaráðs Háskóla Íslands að bjóða stúdentum upp á nám á sumarmissiri. Ég vil árétta að hér er ekki verið að ræða um heilt kennslumissiri. Þannig er villandi að tala um sumarmissiri, enda felst tillaga stúdenta ekki í því eins og fram kom hér að framan í þess orðs venjulegu merkingu, heldur sumarnámskeið í tilraunaskyni.

    Mér finnst frumkvæði stúdenta mjög athyglisvert og líklegt að sú verði þróun hér á landi sem erlendis að sumarmissiri verði tekin upp á háskólastigi. Ég er sem sagt hlynntur hugmyndinni. En innan ramma háskólans samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1995 eru sérstakar fjárveitingar ekki mögulegar nema háskólinn breyti forgangsröð sinni.