Sumarmissiri við Háskóla Íslands

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:30:02 (950)

[17:30]
     Fyrirspyrjandi (Petrína Baldursdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Ég veit það, eins og ég kom inn á í ræðu minni hér áðan, að þetta hefur ekki verið eitt af forgangsröðunarmálum háskólamanna og reyndar kom háskólarektor inn á fund hjá menntmn. Alþingis um daginn þar sem hann sagði að þetta væri mjög athyglisverð hugmynd en þetta væri ekki í forgangsröð hjá háskólanum. Þetta snertir að vissu leyti líka sjálfstæði háskólans um það að hann forgangsraði þeim hugmyndum sem hann hefur um hvað á að vera í forgangsröð eða ekki. En ég vil ítreka það að ég tel að þetta sé mjög athyglisverð hugmynd hjá stúdentaráði Háskóla Íslands og þetta sé hugmynd og stefnumótun sem háskólaráð og þeir sem eru með fjárveitingavaldið ættu að móta í sameiningu. Það er náttúrlega ekkert skrýtið að háskólarektor segi að þetta sé ekki í forgangsröðun þegar hann stendur frammi fyrir því, eins og þeir segja háskólamenn, að það vanti u.þ.b. 300 millj. kr. til þess að hægt sé að bjóða upp á það nám og þær aðstæður sem henta námsmönnum í Háskóla Íslands.