Miðstöð fyrir nám í matvælagreinum

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:36:36 (953)


[17:36]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar tel ég rétt að taka það fram af því að vikið var að samþykkt ríkisstjórnarinnar um matvælaiðnaðinn í Eyjafirði að öllum er kunnugt um það að atvinnuleysi hefur verið mikið á Eyjafjarðarsvæðinu og það er leitað ýmissa leiða til þess að styrkja grundvöll atvinnustarfseminnar þar. Ef þær upplýsingar liggja ekki fyrir þá er mér ljúft að veita þær upplýsingar hér að langstærsta iðngreinin á Eyjafjarðarsvæðinu er matvælaiðnaður. Við þá atvinnugrein starfa sennilega um 2.000 manns og matvælaiðnaðurinn á Eyjafjarðarsvæðinu veltir væntanlega um 14 milljörðum á ári. Samþykktin sem ríkisstjórnin gerði um þetta mál snertir það að kanna hvaða þörf þetta atvinnulíf hefur fyrir bætt rannsóknarumhverfi og að laga verkmenntunina á svæðinu að þörfum atvinnulífsins.
    Ég reikna fastlega með því að hv. fyrirspyrjandi og ég séum sammála um það að það er eðlilegt að verkmenntunin á Eyjafjarðarsvæðinu sé í samræmi við þarfir atvinnulífsins þar.