Aðstaða nemenda við Fjölbrautaskólann í Breiðholti

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:46:35 (958)




[17:46]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör, en ég verð nú að segja það að ég vona að ég hafi ekki misskilið menntmrh. Mér fannst liggja í hans svörum orð þess efnis að annars vegar ætti að flytja matvælaiðnað Fjölbrautaskólans í Breiðholti í Kópavog og jafnvel að minnka eða færa einhverjar greinar járniðnaðar eða trésmiða frá Breiðholti og í Grafarvoginn. Ég tel að ef svo er sem mér heyrist að það séu áform um að flytja þessar greinar úr einu fjölmennasta hverfi borgarinnar í aðrar áttir, ef svo mætti segja, þá er hér um verulega röskun á högun þeirra íbúa Breiðholts sem hafa flust til þessa hverfis m.a. með það í huga að geta átt greiðan aðgang að FB þó ekki sé nema vegna fjarlægðar. Ég tel að þetta sé ekki eðlileg og rétt stefna. Vissulega má deila um það hvernig eigi að halda á þessum málum en ég veit það að Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hefur skipað sér góðan sess meðal nemenda. Hann hefur gott orð á sér og ég veit það að almennt eru nemendur í þessum skóla ánægðir með þær greinar sem boðið er þar upp á, en hins vegar eins og ég kom hér inn á í upphafi máls míns, þá eru nokkrar greinar sem þurfa betri aðstöðu heldur en raun ber vitni. En mér þykir það hins vegar tíðindi ef það stendur til að flytja þessar greinar á þá tvo staði í Kópavog og í Grafarvog þannig að umsvif Fjölbrautaskólans í Breiðholti verða minnkuð með þeim hætti.