Aðstaða nemenda við Fjölbrautaskólann í Breiðholti

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:48:44 (959)


[17:48]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Þetta eiga í sjálfu sér ekki að vera nein sérstök ný tíðindi, a.m.k. eru þau það ekki hjá þessum skólum sem í hlut eiga. Það hefur verið unnið á undanförnum árum að endurskipulagningu iðnnámsins hér á höfuðborgarsvæðinu og raunar víðar í framhaldsskólum landsins í því skyni að koma við ákveðinni hagræðingu. Það er auðvitað auðveldast að koma henni við einmitt hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir eru skólarnir og að því er unnið einmitt í þeim greinum sem eru hvað dýrastar. Það gengur ekki á svæði eins og hér að bjóða fram í hverjum skóla nám í dýrustu námsbrautunum. Og það er einmitt það sem verið er að gera öðrum þræði með stofnun Borgarholtsskólans að hann taki við nokkrum námsbrautum sem boðnar eru fram sérstaklega við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og raunar líka við Iðnskólann í Reykjavík. Þetta er allt gert í góðu samstarfi, ég vona að ég sé ekki að segja meira en ég get staðið við, í góðu samstarfi við forstöðumenn þessara skóla. Og á því ríkir skilningur að þarna þurfi að hagræða.
    Ég bendi á að það er auðvitað mjög fjölmennt hverfi að rísa austast í borginni, í Borgarholtinu, þannig að þar verður full þörf fyrir skóla. Og raunar er það sérstakt við þann skóla að hann er byggður í samstarfi ríkisins og tveggja sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar, sem er einnig aðili að skólanum.
    Ég vil svo taka undir það að það er ekki á nokkurn hátt verið að sneiða að Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þótt skipan námsins sé tekin til endurskoðunar og ég veit að sá skóli hefur á sér gott orð og hefur skipað sér góðan sess.