Kennsla faggreina í netagerð

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 17:58:06 (962)


[17:58]
     Fyrirspyrjandi (Pétur Bjarnason) :

    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. þessi svör en finnst þau svolítið sérkennileg þar sem ráðuneytið hefur sjálft með bréfi tekið þá ákvörðun að faggreinakennsla væri aðeins á einum stað og það í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tekur síðan aðra ákvörðun án þess að hafa samráð við þá sem um þetta sömdu á sínum tíma. Rökin finnst mér tæpast nægilega sannfærandi og vil spyrja í framhaldi: Þýðir þetta það að ef netagerðarnemahópur kemur fram á Seyðisfirði eða á Ísafirði eða á Akureyri þá megi búast við að boðið verði upp á kennslu ef aðstæður eru eins og hann lýsti hér, hæfir kennarar eru og annað sem til þarf? Mér finnst svolítið sérkennilegt þegar svona er staðið að málum að það er búið að semja um kennslu þessara nema sem eru fáir og þarna finnst mér vera viðleitni til þess að drepa þessum kröftum sem standa að þessu á dreif.