Niðurfelling virðisaukaskatts af barnafatnaði

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:09:17 (966)


    [18:09]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Mér fannt afar athyglisvert að hlusta á svar hæstv. fjmrh. við þessari fsp. ekki síst þar sem hann tíundaði þar nánast öll þau rök sem við framsóknarmenn beittum í umræðunni í fyrravetur þegar rætt var um það hvort taka ætti upp tvö þrep á virðisaukaskatti á matvæli. Hæstv. ráðherra sagði að það væru til betri leiðir til tekjujöfnunar. Hæstv. ráðherra lagði verulega áherslu á að með því að gera kerfið flóknara væri verið að auka hættu á skattsvikum og hæstv. ráðherra sagði, ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo, að flókið og óskilvirkt skattkerfi byði hættunum heim.
    Ég vil vekja athygli á þessu, hæstv. forseti, ekki síst með tilliti til þeirra ummæla sem hæstv. ráðherra hefur haft í þingsölum í vetur um tillögur okkar framsóknarmanna í fyrra og þann tilgang sem þær áttu að þjóna.