Niðurfelling virðisaukaskatts af barnafatnaði

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:12:59 (968)


[18:12]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson hafi hlustað á mína framsöguræðu þar sem ég sagði mjög skýrt og skorinort að það gætu verið rök til þess að fara ekki að hinum skattalegu sjónarmiðum. Það er alveg augljóst að það voru mjög mikil rök til þess þegar matarskattinum var breytt enda var það hluti af kjarasamningi. Ég vil taka það skýrt fram að sú aðgerð tókst mjög vel að allra áliti sem hafa skoðað það mál. Ég vil að það komi hér mjög rækilega fram.
    Vandinn varðandi barnafatnaðinn er meiri en í matvælunum jafnvel þótt þar hafi verið vandi þegar reynt var að greina sælgæti frá t.d. matvöru. Þeir sem fletta upp í skýrslu Ríkisendurskoðunar, fylgiskjali II á bls. 8 sjá að þar eru lýst vissum vandræðum sem eru í Bretlandi. Þar kemur fram að undanþegnar skattinum í Bretlandi eru vörur sem gerðar eru sem fatnaður eða skófatnaður fyrir smábörn og ónothæfar eru fyrir fullorðna. Þá þarf að sjálfsögðu að skilgreina þau hugtök sem notuð eru nánar. Þannig er m.a. kveðið á um að til fatnaðar teljist hattar og önnur höfuðföt. Nú var tilgangur undanþágunnar sá að létta framfærslu þeirra sem minna hafa handa á milli þess vegna hefur þótt rétt að takmarka ívilnun til þeirra sem hafa efni á því að vefja börn sín dýrindis loðfeldum. Því var ákveðið að til fatnaðar sem er undanþeginn telst ekki fatnaður sem gerður er að öllu leyti eða að hluta úr loðskinnum. Frá því síðan var gerð undantekning að loðskinn megi þó vera í höfuðfötum, hönskum, hnöppum, beltum og spennum, svo og ef loðskinnin eru minna en fimmtungur flatarmáls flíkur að utanverðu eða að kostnaðurinn við loðskinnið í flíkinni sé minni en helmingur af heildarkostnaði hennar. Næsta vandamál var svo að ákveða hvað væri loðskinn og hvað ekki. Niðurstaðan varð sú að loðskinn sé einhvers konar skinn, loðið eða með hárum eða ull. Þegar hér var komið sögu kom hins vegar í ljós að í augum skattyfirvalda eru loðskinn misverðug þess að njóta undanþágu og því var ákveðið að sem loðskinn í skilningi virðisaukaskattslaganna skyldi ekki vera kanínuskinn, sauðagærur eða lambsgærur eða yfirleitt sútuð eða óunnin skinn af kvikfénaði, þar á meðal bufflum, hestum og geitfénaði. Enn vandast þó málið því ekki eru allar geitur jafnar fyrir augum skattyfirvalda. Þannig var ákveðið . . .  
    ( Forseti (VS) : Tíminn er búinn, hæstv. ráðherra.)
. . .  að þótt geitaskinn teldust almennt ekki loðskinn skyldi skinn af jemenískum og mongólskum geitum teljast til loðskinna.
    Þetta, virðulegi forseti, vildi ég láta koma fram til að sýna hvaða erfiðleikar geta verið á framkvæmdinni.