Málefni sumarhúsaeigenda

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:28:22 (973)


[18:28]
     Fyrirspyrjandi (Petrína Baldursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér hef ég lagt fram á þskj. 125 fsp. til félmrh. um málefni sumarhúsaeigenda.
    Sumarhúsaeigendur frá mjög misjafna þjónustu frá þeim sveitarfélögum þar sem þau eru staðsett. Engar skilgreiningar eru til um hvaða þjónustu sveitarfélögum er skylt að veita þeim sumarhúsaeigendum er þau taka gjöld af. Í þeim sveitarfélögum þar sem finna má flesta sumarbústaði er álagður fasteignaskattur á sumarhúsaeigendur stór hluti heildarálagðra fasteignaskatta. Sumarhúsaeigendur telja sig enga aðstöðu hafa til þess að þrýsta á sveitarfélög um einhverja þá þjónustu sem þeir telja þörf á. Þeir hafa t.d. ekki fengið áheyrnarfulltrúa á hreppsnefndarfundum til að fylgjast með hvað gert er við þá peninga sem þeir greiða til sveitarfélagsins.
    Samkvæmt núgildandi lögum er sveitarfélögum ekki skylt að veita sumarhúsaeigendum nánar tilgreinda þjónustu nema að því er varðar brunavarnir.
    Það er alveg ljóst að þessi mál eru í miklum ólestri víðs vegar þar sem sumarhúsaeigendur eiga í hlut. Það er ekkert jafnræði fólgið í því að greiða ákveðið gjald til sveitarfélaga en vita ekki á hverju maður á rétt í staðinn. Ég tel vægast sagt mjög ómarkvisst að þessum málum staðið. Fyrrv. félmrh. skipaði starfshóp um þessi mál í apríl 1993. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðherra í lok maí 1994. Þá hafði hópurinn verið að störfum í um það bil 13 mánuði án þess að skila neinum niðurstöðum um hvað þeir teldu skylt að sveitarfélög veittu í staðinn fyrir að innheimta fasteignaskatt af sumarhúsaeigendum. Ég

tel að það sé um mikið réttlætismál að ræða fyrir eigendur sumarhúsa að niðurstaða fáist í þessi mál. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. félmrh. eftirfarandi spurninga á þskj. 125:
  ,,1. Hvernig hyggst ráðherra skilgreina hvaða þjónustu sveitarfélögum er skylt að sinna með því að innheimta fasteignagjöld af sumarhúsaeigendum?
    2. Finnst ráðherra koma til greina að sveitarfélög ,,eyrnamerki`` þann hluta fasteignaskatts sem greiddur er af sumarhúsaeigendum og að sá sjóður yrði notaður í þágu þeirra sérstaklega?``