Frísvæði á Suðurnesjum

22. fundur
Mánudaginn 31. október 1994, kl. 18:45:53 (979)


[18:45]
     Fyrirspyrjandi (Petrína Baldursdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans svör. Eins og kom fram í hans máli þá hóf nefndin, sem hefur fjallað um þessi mikilvægu mál, störf árið 1992 og hefur fundað vikulega. Það verður að segjast eins og er að það er komið langt á árið 1994 og enn hafa niðurstöður ekki legið fyrir. Þetta virðist taka óhemjutíma og vera óhemjumikið mál að komast að einhverri niðurstöðu um hvort eitthvert vit sé í því að stofna fríiðnaðarsvæði eða ekki. Vissulega gera flestir sér grein fyrir því að það geta verið eðlilegar skýringar á þessu eins og það efnahagsumhverfi sem hefur verið í heiminum undanfarið. Við gerum okkur líka grein fyrir því að það eru bjartari tímar fram undan. En ég ætla að vona það að hæstv. utanrrh. reynist sannspár um það að ríkisstjórnin fái tillögur nefndarinnar núna fyrir áramót og upp frá því liggi það alveg skýrt fyrir hvort gagn sé að því að fara út í stofnun frísvæðis á Suðurnesjum vegna þess að það verður að segjast alveg eins og er að t.d. á Suðurnesjum er geysilega mikill áhugi fyrir þessum málum og menn eru náttúrlega orðnir dálítið þreyttir á þessari umræðu, fríiðnaðarsvæði eða ekki. Sú umræða er búin að standa núna í a.m.k. þrjá áratugi þannig að það er kominn tími til að eitthvað fari að gerast í þessum málum.