Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 15:01:38 (986)


[15:01]
     Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mig langar til þess að gera nemendafjölda í bekk að umtalsefni í kjölfar ræðu hv. þm. Péturs Bjarnasonar. Ég vek athygli á því að í gildandi lögum eru ákvæði um nemendafjölda í bekk inni í fjármálakaflanum þannig að það er fyrst og fremst um fjármálalega viðmiðun að ræða. Ég vek líka athygli á því að í greinargerð með frv. til laga, sem hér er til umræðu, segir á bls. 15, þar sem er fjallað um grunnskólann á ábyrgð sveitarfélaga, að gert sé ráð fyrir því að sveitarfélög setji sér svipaðar viðmiðunarreglur og nú eru notaðar þar. Þegar kennslukostnaður einstakra skóla er reiknaður er verið að fjalla um nemendafjölda í bekk.
    Ég tel að ekki sé til bóta að njörva niður í lög viðmiðun um bekkjarstærðir. Það getur virkað hamlandi á skólastarfið og það er langeðlilegast að hver sveitarstjórn ákvarði tímamark til skólanna út frá áætlun skólastjóra og þeim faglegu áherslum sem þar koma fram og þar með talið er þá bekkjarstærð. Engin ástæða er til þess að binda þetta í lög. Það á að fara eftir þörfum og áherslum hvers skóla á hverjum tíma.
    Ég hjó sérstaklega eftir því áðan að hv. þm. Pétur Bjarnason nefndi dönsku. Hann varar við því að hún verði gerð að einhverri afgangsstærð. Hvergi kemur fram í umfjöllun nefndarinnar að danska eigi að vera afgangsstærð. Hins vegar er lagt til í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu að enska verði fyrsta erlenda tungumál en jafnframt er lögð áhersla á nauðsyn þess að við nemum áfram dönsku. Áhersla er lögð á að sami tímafjöldi í dönsku verði kenndur hér eftir sem hingað til og sérstök áhersla er lögð á fagmennsku og fagmenntun kennara í dönsku.